Nú hillir undir að valdatíma Röskvu í Háskóla Íslands ljúki. Þessi ungliðahreyfing Samfylkingarinnar hefur í vetur sýnt öll einkenni deyjandi valdhafa, enda dylst engum að skapadægrið er skammt undan. Í sjálfu sér er breytinga þörf af þeirri ástæðu einni hve lengi Röskva hefur setið að völdum – allt vald spillir og algjört vald spillir. En það kemur meira til, mun meira.
Nýjasta dæmið um hversu Röskva hefur fjarlægst það hlutverk að vera hagsmunavörður stúdenta er samningur Stúdentaráðs við háskólayfirvöld um rekstur Réttindaskrifstofu stúdenta. Með honum er skrifstofan í raun orðin hluti af stjórnkerfi háskólans, fjármögnuð af háskólayfirvöldum og undir eftirliti þeirra. Þórlindur Kjartansson, formaður Vöku, ritar grein í Morgunblaðið í dag, þar sem hann segir m.a.:
„Þetta er ámóta snilldarleg ákvörðun hjá Stúdentaráði og ef Neytendasamtökin tækju að sér þá þjónustu að gæta hagsmuna neytenda gagnvart stórverslunum gegn greiðslu og undir eftirliti samtaka stórkaupmanna.“
Og Þórlindur heldur áfram:
„Hinn lífsseigi meirihluti Röskvu í Stúdentaráði hefur í lengri tíma haldið því fram að án fjármagns frá Háskóla Íslands væri ráðið óstarfhæft. Með öðrum orðum þá er velvild háskólayfirvalda á hverjum tíma mikilvægari Stúdentaráði en gagnsemi þess fyrir stúdenta. Þetta ástand er óviðunandi, en það er auðvitað fullkomlega rökrétt, miðað við þá stefnu Stúdentaráðs, að þiggja umboð sitt frá háskólayfirvöldum frekar en stúdentum.“
Óhætt er að taka heilshugar undir gagnrýni Þórlinds. Röskva hefur algerlega misst tökin á því meginhlutverki Stúdentaráðs að standa vörð um hagsmuni stúdenta. Þess í stað hefur tekið við samsömun samtaka félagshyggjufólks og ráðsins, þar sem viðgangur hvors um sig er meginmarkmiðið.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021