Nú þegar árið er hálfnað hefur dóttir mín fengið skerta leikskólaþjónustu hjá Reykjavíkurborg mikinn meirihluta ársins líkt og skólasystkin hennar í sveitarfélaginu. Árið hefur auðvitað verið um margt sérstakt – fordæmalaust myndu einhverjir segja. Um miðjan febrúar skall á allsherjarverkfall Eflingar sem hafði mikil áhrif á starfsemi leikskóla borgarinnar. Þau börn sem urðu verst úti voru þau sem höfðu deildarstjóra í Eflingu og sættu því allsherjar skerðingu í verkfallinu. Börn eins og dóttir mín. Þegar kjarasamningar loksins náðust 10. mars var gleðin skammvinn, en þann 13. mars var rekstur leik- og grunnskóla takmarkaður af ástæðum sem ættu að vera öllum kunnar.
Nú þegar tæpir tveir mánuðir eru frá því að tilslakanir sóttvarnaryfirvalda vegna skólahalds tóku gildi og allar takmarkanir á opnun leikskóla voru afnumdar, er dvalartími barna enn skertur hjá Reykjavíkurborg. Skólarnir loka klukkan 16.30 á þeim grundvelli að enn sé í gildi hættustig almannavarna vegna COVID19. Foreldrar leikskólabarna í Reykjavík eiga erfitt með að andmæla skýringum um „sóttvarnir starfsfólks og annarra fullorðinna“ og reyna því að þrauka fram að sumarleyfi.
Ég hef átt í erfiðu sambandi við Reykjavíkurborg í leikskólamálum á meðan börnin mín hafa notið þessarar þjónustu borgarinnar. Ég gekk til liðs við foreldraráð um leið og sonur minn, þá tveggja ára, hóf leikskólagöngu og fékkst þar við ýmis verkefni. Þrátt fyrir að búa í sveitarfélagi með Íslandsmet og -hámark í útsvari, voru viðfangsefnin t.a.m. hvort við foreldrarnir ættum að mæta nokkrum sinnum í leikskólann um helgar til þess að sinna eðlilegu viðhaldi eins og að mála og hvort við mættum og ættum að senda börnin með ávexti í nesti vegna fyrirhugaðs niðurskurðar matarkostnaðar.
Þótt COVID-skýringar Reykjavíkurborgar geti átt við um þessar mundir, ríma þær (af tilviljun) við samþykkt borgaryfirvalda frá því í janúar um varanlega breytingu á opnunartíma leikskóla borgarinnar. Með breytingunni var opnunartími og þar með svigrúm leikskóla stytt um hálfa klukkustund, eða til 16.30. Samþykkt var að gefa foreldrum og börnum aðlögunartíma að breytingunum sem áttu að taka gildi 1. apríl 2020. Málinu var til allrar lukku vísað til frekari vinnslu innan borgarinnar og virðist því hafa verið vanhugsað og ekki nógu vel unnið og undirbúið.
Samþykkt meirihlutans í Reykjavík um skerðingu á leikskólaþjónustu er afturför sem kæmi verst niður á einstæðum foreldrum, útivinnandi konum og láglaunafólki. COVID-afsakanir eru góðar og gildar (og mikið notaðar) um þessar mundir. Vonandi verður þeim ekki misbeitt til „aðlögunar“ á óvinsælum og takmarkandi ákvörðunum valdhafa
- Besta hátíðin - 9. apríl 2023
- Lýðræðið mun sigra - 2. júlí 2021
- Norræn vídd í varnarsamstarfi - 29. júní 2021