Hvernig væri að láta tryggingarfélag sem rekið er í hagnaðarskyni annast rekstur heilbrigðisþjónustu, umönnun sjúklinga og fleira?
Það liggur við að ég heyri skandífasista allra skúmaskota skjótast fram, organdi og emjandi: Er ykkur ekkert heilagt, þarna öfgaofstopa frjálshyggjupakk?! Á nú að fara að einkavæða krabbameinið og selja liðagigtina hæstbjóðanda?!
Ég átti þess kost fyrir ári síðan að kynna mér starfsemi sjúkrastofnunar í Finnlandi sem heitir Omasairaala. Hún er í eigu tryggingafélags. Þar eru gerðar nokkrar tegundir af aðgerðum; á mjöðmum, öklum, hnjám og öxlum. Ég held að þetta heiti á fagmálinu bæklunaraðgerðir. Gangi ykkur vel að lesa heimasíðuna þeirra, hún er á finnsku.
Omasairaala er rekin eins og hvert annað þjónustufyrirtæki sem hefur það að markmiði að þjónusta sjúklinga sína sem best. Sérhæfingin er vissulega mikil og því fer fjarri að þetta sjúkrahús sinni heildstæðri heilbrigðiþjónustu. En vegna hinnar miklu sérhæfingar er þjónusta við skjólstæðingana framúrskarandi. Biðtími eftir aðgerðum er talin í dögum og allt miðar að því að skjólstæðingarnir verði sem fyrst hraustir á nýjan leik.
Eitt af því sem Omasairaala lagði hvað mest upp úr var að lágmarka biðtíma sem getur verið 4-6 vikur á venjulegum sjúkrastofnunum í Finnlandi. Þeir kappkosta hins vegar að gera aðgerðirnar miklu fyrr. Ekki er þörf á því að panta tíma, ef þú lendir í slysi og telur að þú þurfir aðgerð ferðu til þeirra, ferð í skoðun og aðgerð gerist þess þörf. Allt þetta ferli á ekki að taka meira en 24 tíma, stundum minna.
Tryggingarfélagið, þið munið, þetta sem rekið er í gróðaskyni og er eigandi sjúkrahússins, hefur beinan hag af því að tryggingartakar, skjólstæðingar sjúkrahússins, komist til heilsu sem fyrst. Bótagreiðslur þess lækka þannig í beinu samhengi við skilvirkni sjúkrahússins. Er það ekki einmitt markmið sjúklinganna líka? Að komast sem fyrst til bættrar heilsu?
Skandífasistarnir: En brúsinn?! Hver á að borga hann??
Í flestum tilfellum eru það tryggingafélög sem greiða fyrir aðgerðirnar og þó viðkomandi sé ekki tryggður hjá eigendum Omasairaala þarf hann ekki að örvænta. Önnur tryggingafélög hafa nú þegar gert samninga við sjúkrastofnunina og greiða fyrir þjónustuna beint til Omasairaala. Ef skjólstæðingurinn er hins vegar ekki tryggður býðst honum að dreifa kostnaði á allt að tveggja ára tímabil.
Vissulega er hér um sérhæfða lausn að ræða fyrir takmarkaðan hóp og felur það í sér að tryggðir standa betur að vígi en ótryggðir. Mismunun eftir efnahag? Já, mismunun eftir forgangsröðun, mismunun eftir fyrirhyggjusemi…
Íslenska heilbrigðiskerfið er því miður mjög niðurnjörvað í ríkisrekstri. Öllum hugmyndum um aukinn einkarekstur hefur verið harðlega andmælt af skandífasistum allra flokka. Við stöndum núna frammi fyrir því að missa úr landi verðmæta þekkingu og færni ef kjaradeila lækna og ríkisins fer á versta veg. Það virðast engar líkur á því að ríkisvaldið geti komið móts við kröfur lækna. Eftir því sem næst verður komist eru kröfur þeirra um tífaldar þær sem seðlabankastjóri nefndi sem hæfilegar launahækkanir í almennum kjarasamningum.
Þessi ömurlega staða er afleiðing af inngrónum skandífasisma í íslensku heilbrigðiskerfi. Áherslan hefur verið á fullkominn jöfnuð allra sjúklinga í stað að einblína á aukna velferð. Menn hafa fremur kosið að allir fá jafn lélega þjónustu til að tryggja jöfnuðinn. En er virkilega verra að allir fái betri heilbrigðisþjónustu, þótt í því felist að sumir fái 10 sinnum betri þjónustu en aðrir 5 sinnum betri þjónustu?
Ég efa það að Íslendingar séu á þeim stað að þeir vilji einkavæða allt heilbrigðiskerfið í einum grænum. Við þurfum hins vegar að gera grundvallarbreytingar og innleiða hagræna hvata í heilbrigðiskerfið. Við þurfum að halda læknum og öðrum hæfu heilbrigðisstarfsfólki á landinu. Það gerum við ekki með enn einni aukafjárveitingunni til Landsspítalans. Það gerum við með því að hugsa kerfið upp á nýtt.
Hagrænir hvatar eru ekki slæmir. Samfélag eða kerfi sem ekki býr við hagræna hvata mun grotna niður. Þannig er staðan á íslenska heilbrigðiskerfinu.
- Hoppandi beljur að vori - 17. maí 2020
- Eftir það var ekkert eins og áður - 4. apríl 2020
- Velkomin í martröð úthverfanna - 20. mars 2020