Skoðanakönnun Ásgeirs Hannesar Eiríkssonar um hugsanlega afstöðu fólks til mögulegs framboðs þjóðernisflokks á Íslandi sýnir að jarðvegur er til staðar fyrir framboð sem byggist á tortryggni fólks gagnvart útlendingum. Niðurstaðan kemur ekki sérstaklega á óvart og líkast til var það einungis tímaspursmál hvenær einhver tæki það upp hjá sér að verða málsvari þeirra popúlísku sjónarmiða hér á landi sem víða í Evrópu hafa hlotið verulegan hljómgrunn kjósenda.
Popúlísk framboð á borð við það sem Ásgeir Hannes hefur gert sér í hugarlund byggja málflutning sinn á þeirri forsendu að innfæddum í landinu stafi ógn af innflytjendum og að öllum, þar á meðal innflytjendunum sjálfum, sé greiði gerður með því að draga enn frekar úr tækifærum fólks til að setjast að í landinu.
Röksemdin sem stuðst er við er sú að óhjákvæmilegt sé að vandamál komi upp í samfélögum þar sem nýtt fólk sest að í stórum stíl. Vísað er til vandræða í öðrum löndum þar sem stórir hópar innfluttra, og afkomendur þeirra, virðast ekki – í skilningi popúlistanna – hafa aðlagast þeim menningarheimi sem þeir hafa flust til og það skapi tortryggni og andúð á innflytjendum. Menn á borð við Ásgeir Hannes halda því fram að til þess að koma í veg fyrir að Íslendingar fái andúð á innflytjendum sé lausnin sú að bjóða fram stjórnmálaflokk sem byggist eingöngu á andúð fólks og tortryggni gagnvart útlendingum.
Þessi röksemd gengur ekki upp. Raunar má færa rök fyrir því að stofnun sérstaks þjóðernisflokks sé einmitt öruggasta ráðið til þess að skapa þau vandamál sem flokkurinn þykist vilja koma í veg fyrir. Ástæðan er sú að þegar slíkur flokkur nær fótfestu breytist pólitískt landslag í samfélaginu á þann veg að stór hópur kjósenda skilgreinir sig pólitískt út frá því eina málefni að ákveðinn hópur í samfélaginu kunni að valda vandræðum. Í samfélögum þar sem popúlísk þjóðernisframboð hafa náð verulegu fylgi aukast vandamálin milli innflytjenda og meðborgara þeirra. Hatursfullur áróður gegn innflytjendum og útlendingum verður skyndilega góð og gild pólitísk umræða. Það hefur í för með sér að annar hópur í samfélaginu, innflytjendurnir sjálfir og afkomendur þeirra, verður tortryggnari gagnvart samfélaginu og búa við þá tilfinningu að þeir muni aldrei fá tækifæri til þess að verða fullgildir meðlimir í samfélaginu. Vonleysið sem af þessu leiðir getur ekki annað en kynt undir félagsleg vandamál þess hóps sem fyrir árásunum verður.
Framboð sem byggist á þeirri forsendu að fjölgun innflytjenda muni leiða af sér átök og hnignun í samfélaginu er því einhver versta vörnin gegn þeim hugsanlegu vandamálum sem upp kunna að koma. Raunar þá hljóta talsmenn slíks framboðs að tala gegn betri vitund. Þeir sigla undir fölsku flaggi þar sem þeir telja sig geta gert sér pólitískan mat úr lægstu hvötum fólks. Markmið slíks framboð er fullkomlega eigingjarnt.
Réttur manna til að tjá skoðanir sínar og gera tilraunir til að afla þeim fylgis eru meðal helgustu og dýrmætustu réttinda í vestrænu samfélagi. Þess vegna er ekkert hægt að segja við því að ýmsar skoðanir séu bornar á torg. En að sama skapi verður að vara við líklegum afleiðingum öfgafulltra pólitískra skoðana.
Alls staðar í Evrópu hafa sprottið fram hreyfingar manna sem sjá sér ekkert betra hlutverk í lífinu heldur en að ala á þessum kenndum. Sumir gera það af yfirlögðu ráði – þeir vita hvaða sársauka þeir eru að kalla yfir fólk en láta sér það í léttu tómi liggja – enda telja þeir eigin pólitískan frama mikilvægari en nokkuð annað. Aðrir forystumenn slíkra hreyfinga eru hins vegar helteknir af óöryggi eða fordómum sjálfir. Enda byggist stuðningur við öfgafullrar þjóðernishreyfingar ekki á æðri hvötum heldur en ástæðulausum ótta, tortryggni eða fordómum.
Það er mikilvægt að ábyrgir stjórnmálaflokkar láti könnun Ásgeirs Hannesar ekki slá sig út af laginu. Stjórnmálamenn, og aðrir sem láta sig þjóðmál varða, ættu að líta á það sem hlutverk sitt að draga úr fordómum og forðast þá freistingu að sækja sér pólitískan skyndigróða með því að ala á þessum lágu kenndum. Sem betur fer hafa íslenskir stjórnmálaflokkar staðist þessa freistingu hingað til. Vonandi verður svo áfram.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021