Síðasta ríkisstofnunin: Hjúkrunarheimili ríkisins

Stjórnvöld þurfa að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir svo hægt sé að viðhalda þeim lífsgæðum og velferð sem tekist hefur að byggja upp á Íslandi.

Á þeim rétt rúmu hundrað árum sem Ísland hefur verið fullvalda ríki hefur lífskjörum og velsæld þjóðarinnar fleygt fram. Á tiltölulega skömmum tíma fór Ísland úr því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu í að vera meðal þeirra ríkustu. Samhliða þessum bættu kjörum íbúanna bötnuðu lífsskilyrði á Íslandi til muna. Ungbarnadauði hríðféll og lífaldur fólks óx hratt eins og víðast hvar í Evrópu.

Þá breyttust fjölskyldumynstur hratt. Fjölskyldur fóru í auknum mæli að komast fyrir í fimm manna fjölskyldubíl en á þessum hundrað árum hefur fjöldi barneigna á konu farið úr 3,9 í 1,4 að meðaltali. Þessi þróun er ekki einsdæmi á Íslandi en samfara auknum lífsgæðum dregur úr barneignum um allan heim. Það sem aðgreinir Ísland frá öðrum löndum er að þessi þróun hófst síðar en á meginlandi Evrópu. Á meðan fæðingartíðni dróst hratt saman eftir heimstyrjöldina síðari þá jókst hún á Íslandi.

Það var ekki fyrr en upp úr 1960 sem fæðingartíðni fór að dragast saman á ný og hefur fallið hratt síðan þá. Í dag er fæðingartíðni komin undir tvö börn á hverja konu líkt og á Norðurlöndunum. Fallandi fæðingartíðni ásamt miklum fólksflutningum, einkum til landsins, hafa haft mikil áhrif á aldursamsetningu þjóðarinnar. Á tveimur áratugum hefur fjöldi erlendra ríkisborgara búsettum á Íslandi fjölgað úr 3% upp í 13,5% af mannfjölda.

Þessi þróun hefur hægt á breytingum á aldursamsetningu íslensku þjóðarinnar þannig að Ísland er sér á báti meðal Evrópuþjóða þegar kemur að miðgildi aldurs. Ef allir Íslendingar fara í einfalda röð þá er sá sem er í miðjunni 37 ára í dag. Ef spár ganga eftir verður einstaklingurinn í miðjunni 50 ára árið 2100.

Í alþjóðlegu samhengi mun Ísland því fara úr því að vera meðal yngstu ríkja OECD í að vera meðal þeirra elstu. Þessir þróun er lengra á veg komin í mörgum ríkjum OECD t.d. er miðgildi aldurs á Norðurlöndum öllum yfir 40 ár og 48 ár í Japan þar sem miðgildi aldurs er hæst.

En hvaða máli skiptir breytt aldurssamsetning þjóða? Hefur hún einhver áhrif á samfélagið? Til þess að meta áhrif öldrunar þjóða er gjarnan litið til svokallaðs framfærsluhlutfalls sem mælir hversu stór hluti er utan vinnumarkaðar samanborið við þá sem eru vinnualdri. Með öðrum orðum hversu margir á vinnualdri eru að framfleyta þeim sem eru utan vinnumarkaðar.

Í dag er framfærsluhlutfallið hátt í alþjóðlegu samhengi og hefur hlutfallið lækkað hægt þökk sé miklum fólksflutningum til landsins. Á komandi árum verður ekki hægt að ganga að því vísu að sú þróun haldi áfram. Á næstu 40 árum er fyrirséð að framfærsluhlutfallið muni helmingast, fara úr því að vera 4,1 einstaklingar á vinnualdri fyrir hvern 65 ára og eldri í 2,0.

Þetta mun hafa í för með sér þyngri byrðar á vinnandi fólk ef viðhalda á íslensku velferðarkerfi og -þjónustu. Með fjölgun þeirra sem eru utan vinnumarkaðar verða færri vinnandi hendur sem standa undir skatttekjum hins opinbera. Á sama tíma mun þeim sem þurfa á heilbrigðis- og félagsþjónustu að halda fjölga. Því standa stjórnvöld frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort hækka eigi skatta, auka eigi greiðsluþátttöku notenda, skera niður þjónustu eða leita nýrra leiða til að mæta þessari þróun.

Þau lönd sem við berum okkur helst saman við eru þegar farin að finna fyrir áhrifum breyttrar aldurssamsetningar. Norðurlöndin eru farin að huga að hækkun lífeyristökualdurs og hvetja til aukinna barneigna svo dæmi séu tekin. Sem betur fer er aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar hagkvæm svo ekki er of seint að bregðast við og búa í haginn. En áhrifin munu láta á sér kræla hratt á komandi árum. Samkvæmt útreikningum heilbrigðisráðuneytisins mun þörfin á hjúkrunarrýmum aukast svo á næstu 20 árum að ríkið mun þurfa að hætta öllum öðrum ríkisrekstri og -afskiptum til þess að eiga fyrir uppbyggingu og rekstri hjúkrunarrýma, að öðru óbreyttu.[1] Það liggur því í augum uppi að stjórnvöld þurfa að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir svo hægt sé að viðhalda þeim lífsgæðum og velferð sem tekist hefur að byggja upp á Íslandi. Annars endum við öll sem vistmenn á síðustu ríkisstofnuninni, Hjúkrunarheimili ríkisins.


[1] Viðtal við Svandísi Svavarsdóttur, Útvarpsþátturinn Sprengisandur, 12. janúar 2020.

Latest posts by Tryggvi Másson (see all)

Tryggvi Másson skrifar

Tryggvi hóf að skrifa á Deigluna 1. júlí 2021.