Bækurnar hans Hallgríms Helgasonar hafa verið algjört guilty pleasure hjá mér undanfarin ár. Ég hef fengið þær, eina af annarri, að láni frá móður minni eftir að hún hefur lofsamað þær í þó nokkurn tíma, alltaf í einhverjum mótþróa gagnvart rithöfundinum. Ástæða þess að Hallgrímur fellur svona illa í kramið hjá mér svo að ég á erfitt að aðgreina persónu hans frá ritverkunum, er þó ekki efni þessa pistils.
Það er hins vegar skáldsaga eftir hann sem ég las nýverið og get ekki nógsamlega vegsamað. Sagan er Sextíu kíló af sólskini og kom út árið 2018 en ég las hana í einum rykk fyrir örfáum vikum síðan. Mamma hafði þá otað henni að mér í nokkur skipti þegar ég, einu sinni sem oftar, heimsótti hana til þess að fá lánaðar hjá henni bækur. Ég er henni þakklát fyrir að gefast ekki upp á söluræðunni, en hún fullyrti m.a. að þetta væri besta bók sem Hallgrímur hefði skrifað.
Ég er tilbúin til að ganga lengra en það. Þetta er hreinlega ein besta bók sem ég hef lesið. Hún hefur verið í huga mér allt frá því ég lagði hana frá mér, allar 461 blaðsíðurnar. Ég er búin að skila bókinni til síns heima en ætla mér að kaupa hana og lesa aftur. Það verða ákveðin kaflaskil í mínu lífi þegar ég festi kaup á minni fyrstu bók eftir Hallgrím Helgason.
Hvað er svona gott við Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason?
Öllu heldur: hvað er ekki gott við Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason?
Ég hafði lesið um fjórðung af bókinni þegar ég lagði hana frá mér og hugsaði með mér að maður gæti vel við unað að skrifa eina blaðsíðu af eins fallegum og ljóðrænum texta og þessi bók er stútfull af. Nánast hver einasta blaðsíða verksins er þéttskrifuð af ljóslifandi lýsingum og persónusköpun, ljóðrænum samlíkingum; tærri snilld.
Sextíu kíló af sólskini gerist um aldamótin 1900 þegar nútíminn bankaði upp á við komu síldarinnar til landsins og við kynni Íslendinga af nýrri fiskveiðitækni. Sagan er grimm en glettileg örlagasaga Eilífs bónda á Stundarkoti og afkomanda hans. Eilífur missir konu sína, barn og bú í snjóflóði þar sem tveggja ára drengur hans bjargast fyrir hreina Guðs mildi.
Þar sem kotbóndinn stóð yfir þeim kuflaður af sorg og dofa fannst honum eins og þessir nágrannar hans hefðu gengið saman, þeir stóðu nú þarna líkt og flokkur kubbslegra álfa með teskeiðar í höndum. (Þeir pálar og rekur sem bændur nýttu til snjómoksturs voru ekki bestu áhöldin til þess arna. Þótt Íslendingar hefðu í þúsund ár búið í einu mesta snæveldi heimsins voru þeir enn vongóðir um að fannfergið væri aðeins tilfallandi ótíð og höfðu því aldrei búið sér amboðin til að takast á við snjóinn. Er þetta til marks um óbilandi bjartsýni þjóðarinnar. Hún tekur eitt él í einu og trúir alltaf á uppstyttuna.)
Sextíu kíló af sólskini, bls. 28-29.
Það sem mér þótti standa einna mest upp úr lestrinum (og var þar af nógu að taka) eru sálgreiningar höfundar á íslensku þjóðarsálinni. Aðspurður um kílóverðið á hveiti, svarar kaupmaður því til að það fari nú eftir ýmsu. Um það skrifar höfundur:
Hér afhjúpaðist íslenska geðþóttahagkerfið, sá síbreytilegi skýjaflóki. Íslendingar voru þrautgóðir og útsjónarsamir, hjálpsamir flestir og reddingasamir, allra þjóða bestir í að bregðast við óvæntum aðstæðum, en fátt kvaldi þá meira en fastar stærðir, vel undirbúnar ákvarðanir, gerðir samningar og fastmótaðar áætlanir. Þessi þjóð kunni betur við sig úti í óvissunni en inni í vissunni, vildi fremur redda sér út úr ógöngum en forðast að rata í þær með skynsemi og fyrirhyggju.
Sextíu kíló af sólskini, bls. 93.
Ég er síðan tilneydd að halda mig við Afríku-þemað í pistlaskrifum enda las ég bókina í nýjustu vettvangsferð minni þar, nánar tiltekið í þróunarríkinu Úganda. Ýmislegt í sögunni skapaði hugrenningartengsl við það sem fyrir augu bar og áminningu um það hversu mikilvægt það er að róa í rétta átt. Má þar t.d. nefna lýsingarnar á Bæjarkoti og sömuleiðis á sýn Norðmanna á Íslendinga á þessum tíma:
Norskir sjómenn stóðu hvumsa á dekki og undruðust þessa þjóð sem ekki kunni neitt til neins, hirti aðeins lifrina úr hákarlinum en henti rest, og hafði ekki enn lært að veiða hval og hvað þá síld, þrátt fyrir þúsund ára búsetu við þennan sjó, en lét sér nægja að bíða í fjöru og vona að einn og einn hvalinn ræki á land. Og hafði um slíkan hvalreka þróað með sér rammflóknar reglur um hvað hverjum bæri. Þeir höfðu semsagt samið lög yfir stóra vinninginn og biðu þess hungurrólegir að hann bærist þeim í stað þess að róa eftir honum sjálfir.“
Sextíu kíló af sólskini, bls. 250.
Hallgrímur hefur sagt frá því að hann leiki sér að áhrifum frá öðrum rithöfundum í skáldverkum sínum. Áhrif Laxness eru t.a.m. mjög greinileg í Höfundi Íslands og við lestur þessa verks reikar hugurinn á sömu slóðir. Það gæti verið vísvitandi Laxness-minni eða einfaldlega gæði bókarinnar sem skapa þau hugrenningartengsl, ég treysti mér ekki til þess að skera úr um það, a.m.k. ekki eftir fyrsta lestur.
Þessi pistill gæti auðveldlega orðið lengri en 14 ára gamall pistill minn hér á Deiglunni um bókina Arabíukonur, en sá hlaut orðuveitingu fyrir lengd. Í stuttu máli sagt mæli ég eindregið með lestri bókarinnar sem er víst líka til á hljóði. Og enda pistilinn á stuttum fallegum kafla úr bókinni:
Yfir þessu norðlæga fásinni stóð helbjartur himinninn, altómur og yfirfullur í senn, tómur af erindum, tómur af áhyggjum, fullur af anda, fullur af trú. Öldusmátt var utan eyrar en pollslétt innan og strástillt á þúfum og þökum. Utan úr Krónufélagsskemmu heyrðist hurðaskellur en að honum loknum ekkert annað en einmana kríugarg út með fjörunni. Var hér framin hin fegursta nótt sem fjarðarbúar sváfu þó af sér fyrir þreytu og armæðu sakir. Sárust er sú fátækt sem ekki hefur ráð á því sem ókeypis er.
Sextíu kíló af sólskini, bls. 144.
Er það furða að ég hafi gleymt því hvað mér finnst Hallgrímur Helgason lítilsigld persóna?
- Besta hátíðin - 9. apríl 2023
- Lýðræðið mun sigra - 2. júlí 2021
- Norræn vídd í varnarsamstarfi - 29. júní 2021