Segulstöðvarblús

Vinir okkar í vestrinu fagna tilveru sinni sem þjóðar í dag, 4. júlí. Á fáum þjóðum hefur heimsbyggðin meiri skoðun en Bandaríkjamönnum og fáar þjóðir, ef nokkur, hefur haft meiri áhrif á gang heimsmála síðustu áratugi en sú bandaríska, þótt almennt hafi almenningur þar í landi mun meiri áhuga á sínum eigin viðfangsefnum en annarra.

Samfylgd bandarísku og íslensku þjóðarinnar hófst í raun fyrir ekki mjög löngu síðan. Bandaríski herinn leysti þann breska af hér á landi þegar heimsstyrjöldin síðari stóð sem hæst. Það var ekki fyrr en nokkru síðar að Bandaríkjamenn urðu beinir þátttakendur styrjaldarátökunum eftir árás Japana á Pearl Harbour.

Varnarsamningur sá sem gerður var við Bandaríkjamenn í kjölfar stofnunar Atlantshafsbandalagsins að styrjöldinni lokinni hefur reynst vel og er hann grundvallarþáttur í þjóðaröryggisstefnu Íslands enn þann dag í dag. Eflaust verður tilefni til að fjalla nánar um mikilvægi varnarsamstarfsins og verunnar í Atlantshafsbandalaginu síðar en það verður að bíða betri tíma.

Samstarf það sem hófst um miðja síðustu öld milli Íslendinga og Bandaríkjamanna hefur ávallt verið þyrnir í augum íslenskra sósíalista. Andúðin gegn Bandaríkjunum hefur tekið á sig ýmsar myndir í gegnum tíðina og hún hefur svo sannarlega verið misjafnlega beitt í framsetningu og innihaldi. Þannig orti Bubbi Morthens í lagi sínu Segulstöðvarblús fyrir rétt tæpum fjörutíu árum:

Til hvers segullinn sé hér?
Veit sá sem ekki spyr,
til hvers segullinn sé hér?
Veit sá sem ekki spyr:
Til að vinir mínir í vestrinu
viti um dauðann fyrr.

Varnarsamningurinn var ekki og er ekki örlætisgerningur af hálfu Bandaríkjamanna. Viðbúnaður hér á landi er hluti af sameiginlegum vörnum bandalagsríkjanna og þar af leiðandi mikilvægur þáttur í landvörnum Bandaríkjanna. Útlegging listamannsins er því að mörgu leyti rétt, þannig séð.

Margt væri eflaust öðruvísi ef Leifur heppni hefði verið eins þrautseigur og hann var heppinn, og ekki gefist upp á landnámi sínu í heimsálfunni vestan hafs fyrir rúmum þúsund árum. Það breytir þó ekki því að bandarísk menning hefur haft meiri áhrif á íslenskt samfélag en flestra annarra Evrópuþjóða.

Stundum finnst manni jafnvel að flekaskilin milli Evrópuflekans og Norður-Ameríkuflekans liggi ekki bara í gegnum landið okkar, heldur einnig í gegnum þjóðarsálina – að við séum eins miklir Ameríkanar eins og Evrópumenn, eða hvort tveggja í senn.

Að því sögðu óskar Deiglan Bandaríkjamönnum nær og fjær gleðilegrar þjóðhátíðar.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.