Það er mjög merkilegt, nú þegar upplýsingar um allt milli himins og jarðar eru eins aðgengilegar eins mörgum og þær hafa nokkurn tímann verið, að þrætur manna snúist nær undantekningarlaust um staðreyndir.
Hér er ekki átt við þá óáran sem nú tröllríður samfélaginu að allir hafi skoðanir á öllu og um leið tæki og tól til að básúna þær yfir heimsbyggðina í einu formi eða öðru. Hér er heldur ekki átt við þá gagnlegu iðju að menn setji fram og rökstyðji andstæð sjónarmið.
Áður en upplýsingaflóðið drekkti vitsmunastarfseminni þá settu menn fram tilgátur um hluti sem þeir höfðu ekki vitneskju um, þegar staðreyndir lágu ekki fyrir og ekki var hægt að sanna með óhyggjandi hætti að eitthvað væri svona eða hinsegin. Nú þegar allt liggur fyrir, svo að segja, þá hefur sjaldan eða aldrei verið meiri ágreiningur um hluti sem hægt er að staðreyna.
Það má kalla þetta upplýsingaóreiðu eða hvað sem menn vilja. Aðallega er þetta þó virðingarleysi. Þetta virðingarleysi fyrir sannleikanum gerir það að verkum að við erum að verða sífellt fávísari sem samfélag eða hópur þrátt fyrir að sannleikurinn og vitneskjan sé í raun á hverri stundu innan seilingar.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021