Lebron James er nú í sínum tíundu lokaúrslitum í NBA deildinni. Leitun er eftir annarri eins stjórstjörnu sem hefur skandílesarað jafn lítið og fjölskyldufaðirinn frá Akron, Ohio. Körfuboltaleikmaður sem er með 48 milljónir fylgjenda á Twitter og lang valdamesti einstaklingur deildarinnar í áratug eða svo. Hann hefur byggt upp viðskiptaveldi á árum sínum í deildinni en jafnframt beitt sér duglega í góðgerðamálum og baráttu fyrir félagslegu réttlæti. Erfitt er að ímynda sér valdameiri íþróttamann í Bandaríkjunum.
Þrátt fyrir þennan prófíl er stór hluti körfuboltaáhugamanna sem halda yfirleitt með mótherja Lebron, pistlahöfundur man enn eftir því þegar hann fagnaði sigri Dallas Mavericks á Miami Heat 2011 með því að brjóta skjáinn á forláta Nokia síma á fallegri sumarnótt í Vesturbænum. Money well spent.
Nú þegar flestir jafnaldrar Lebron versla stoðtæki hjá Össuri og lýsa körfuboltaleikjum, er hann besti leikmaður deildarinnar, kominn í úrslitarimmu sem hann mun sigra í mesta lagi 6 leikjum og vafalaust verða valinn verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar. Að sjálfsögðu er það einstaklingsbundið hvaða leikmanni hver og einn heldur með, en af hverju hefur reynst mörgum svona erfitt að halda með honum?
Í upphafi var það vegna þess hvernig hann kom inn í deildina. Eftir að hafa verið krýndur “sá útvaldi” í íþróttatímaritinu Sports Illustrated áður en hann hafði spilað einn leik í NBA, kom hann með talsverðum stælum inn í deildina. Krýndi sig sjálfan “konung James” og dreifði kalki yfir fólkið á tímakaupinu í stigavörslunni áður en hann náðarsamlegast blessaði körfuboltavöllinn með því einu að ganga inn á hann. Hefði viljað sjá það atriði í fyrsta skipti með Larry Bird og Charles Oakley.
Því til viðbótar bjó hann til fyrsta ofurliðið á okkar tímum, hann gat ekki unnið með Cleveland Cavaliers sem var liðið sem hann samdi við eftir nýliðavalið og ákvað því að fara í lið með tveimur af bestu leikmönnum sinnar kynslóðar í Miami Heat.
Þetta var þannig lagað óþekkt, aldrei hefði Michael Jordan myndað lið með Magic Johnson eða Larry Bird. Ofan á allt var þetta kynnt með 75 mínútna beinni útsendingu þar sem hann greindi frá ákvörðuninni í lokin eins og lokaatriði í Bachelor, hann færi með hæfileika sína til South Beach. Það var þetta lið sem Dallas Mavericks vann þegar skjárinn brotnaði 2011.
Aðalhindrunin hefur þó verið það guðlast sem hefur þróast sl. áratug þegar farið er að reyna að bera Lebron James saman við sjálfan Michael Jordan.
Fyrstu kynnin af þessu viðhorfi kom frá nettröllum fyrir um áratug. Svo kom hipsterinn til sögunnar, týpan sem hatar allar vinsælar hljómsveitir og veit alltaf um betra bílskúrsband sem bara hann og tveir aðrir innmúraðir hafa heyrt í. Svo komu fáeinir tölfræðiáhugamenn og fóru að handvelja allskyns tölfræði sem var sínum manni í hag og að lokum áttuðu þáttastjórnendur sig á að þetta er endalaus uppspretta fyrirhafnalítillar dagskrárgerðar, Skip segir að Jordan sé bestur og Shannon mætir með geitargrímu þegar Lebron á góðan leik.
Í dag er þó staðan þannig að flest lið sem ætla sér að vinna titilinn, herma eftir leið Miami Heat og sanka að sér stjörnum annarra liða. Sem dæmi myndaði litli bróðir Lakers, Los Angeles Clippers lið þar sem Kawhi Leonard, verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar í fyrra og Paul George stjarna Oklahoma bættust við annars gott lið. Þeir duttu þó út áður en þeir komust í úrslitaleik Vesturstrandarinnar.
Í miðju Covid fárinu í vor, voru svo frumsýndir heimildarþættirnir “The Last Dance” sem lokaði umræðunni um hvort einhver kemst með tærnar þar sem Jordan hafði hælana. Þó enn séu til raddir sem reyna að koma umræðunni aftur af stað, dugir að horfa aftur á heimildarþættina og telja hversu oft Michael Jordan vann titilinn þegar hann komst í úrslitarimmuna, alltaf er svarið. Það ætti því að vera vel mögulegt að samgleðjast Lebron James, þessum ótrúlega íþróttamanni yfir NBA titlinum í ár, hann er langbesti leikmaðurinn í þessari deild og hefur verið í um áratug.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021