Ég las frétt um daginn sem ég hef verið að melta síðan og kom sterkt upp í hugann aftur í gær. Mér finnst ekki ástæða til annars en að fara beint að kjarna máls. Hér þarft engan upptakt. Málið varðar afreksskjaldbökuna Diego sem hefur fengið gælunafnið Casanova fyrir mikilvægt og jafnframt ótrúlegt framlag sitt til stofns síns. Diego hefur með mikilli elju um áratugaskeið náð að bjarga tegund sinni sem var í alvarlegri útrýmingarhættu. Risaskjaldbaka er hann í tvennum skilningi þess orðs. Með dýrmætum stuðningi kvendýranna hefur Diego feðrað hvorki meira né minna en 800 afkvæmi. Ef ekki væri fyrir þetta afrek hans, sem byggir fyrst og síðast á vinnusiðferði hans og fjölmargra vinkvenna hans, vilja sérfræðingar meina að staðan væri ekki aðeins krítísk heldur væri tegund Diego einfaldlega útdauð.
Diego og félagar eru frá einni af Galapagos eyjunum. Þegar þjóðgarður var stofnaður á Galapagos var Diego meðal 14 karldýra sem flutt voru þangað í þeim tilgangi að bjarga stofninum. Þá var staðan sú að aðeins voru eftir um tuttugu skjaldbökur af tegundinni. Það telst á öllum mælikvörðum útrýmingarhætta.
Skjaldbökurnar mættu einbeittar til leiks, sjálfsöruggar jafnvel þótt þær stæðu frammi fyrir verki sem sérfræðingar töldu allt að því óvinnandi. Með skýra sýn um það verkefni sem þurfti að vinna stóðu skjaldbökurnar saman og vörðu stofninn með því að sækja fram. Til þess þurfti þor, til þess þurfti kraft og til þess þurfti leikgleði. Og til þess þurfti frjóan hóp. Risaskjaldbökurnar skiluðu sínu með Diego fremstan í flokki. (Vitaskuld má treysta fjölmiðlamönnum til að gleyma því að hér hafði kvendýrið eðli máls samkvæmt ekki minna hlutverk, en þess er vitaskuld í engu getið í umfjöllun um þetta afrek. Minni fregnir eru af mæðrunum sem alið hafa afkvæmin í heiminn. Niðurstaðan um kynjaslagsíðu í umfjöllun af kynlífi risaskjaldbaka blasir við.)
Menn á samfélagsmiðlum hafa verið að skrifa þetta merkilega framlag Diego á kynhvötina eina. Allir sanngjarnir og vandaðir samfélagsrýnar hljóta hins vegar að geta verið sammála um að hér býr meira að baki. Diego hefur varið áratugum í þetta þakkláta verkefni. Og auðvitað á það við um risaskjaldbökur eins og aðra að menn geta ekki verið í blítrandi stuði alla daga.
Hann er sagður líta út eins og stríðsmaður, sem kann að skýra árangur hans að einhverju leyti. Hann er ekki stór í samanburði við aðrar risaskjaldbökur en sagður hugaður. Diego og risaskjaldbökurnar höfðu hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Og gengu sem einn maður í þetta verkefni. Diego skildi nefnilega sem er að hver og einn getur með framlagi sínu haft mikil áhrif. Ein skjaldbaka getur jafnvel haft úrslitaáhrif.
Diego er nú að verða aldargamall. Örþreyttur en að öllum líkindum alsæll sest hann nú í helgan stein. Hann getur stoltur litið tilbaka og hafið næsta kafla, þar sem kyrrðin fær stærra hlutverk. Risaskjaldbökurnar hafa örfáar komið því til leiðar að heilt samfélag blómstrar. Sigur skjaldbökunnar er þekktur á heimsvísu. Stofninn, afkomendur Diego, telja þegar síðast var vitað um 2000 dýr. Greiningar benda til þess að Diego sé faðir tæplega helmings. Þetta er hans ættbogi og þetta er hans framlag. Hans eftirmæli verða að líkindum þau að hann kaus að fara í gegnum lífið með þá hugmyndafræði að leiðarljósi að láta verkin tala. Verði hann dæmdur af verkunum þá er ekki hægt að segja annað en að hann hafi skilað sínu og rúmlega það.
Og hvers vegna er ég að melta þessa frétt? Mér varð hugsað til hennar í gær þegar ég sá hið ótrúlega gerast, að heimsmeistarar í handbolta voru lagðir að velli. Þvert gegn því sem spár sögðu fyrir um. Vitaskuld er saga Diego saga af mikilli leikgleði og af mikilvægum sigri, en þetta eru líka sagan af því að fáir geta áorkað miklu. Sagan af því að fámennur hópur getur náð ævintýralegum árangri, langt umfram það sem menn telja í kortunum. Diego virðist hafa skilið mikilvægi hvers og eins, hann skildi einstaklingsframtakið og hann skildi mikilvægi liðsheilarinnar. Þannig geta fáir menn náð gríðarlegum árangri. Fréttin af Diego og árangri hans er sagan af því að hver maður telur.
- Í þágu hverra er auðlindaákvæði? - 7. júní 2021
- Síðustu 17 ár Ruth Bader Ginsburg – hvaða þýðingu höfðu þau? - 14. maí 2021
- Má gagnrýna góð markmið? - 2. apríl 2021