Einu sinni var bær. Í þessum bæ bjó alls konar fólk með alls konar skoðanir. Þar voru líka alls konar búðir sem seldu alls konar vörur. Alls konar mjólk, alls konar brauð og ýmislegt annað alls konar sem við förum nú ekki að nefna hér.
Sumar þessara búða voru lélegar of fóru þá hratt á hausinn. Aðrar voru betri, lifðu í gegnum tvær þrjár kynslóðir af eigendum og fóru svo á hausinn. Oftast var fólk sæmilega sátt við að hafa alls konar búðir en stundum héldu sumir því fram að það væri betra að hafa bara eina keðju af búðum, sem yrðu þá reknar “á félagslegum forsendum með aðhaldi frá lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum bæjarins”.
Dag einn lenti bærinn í kreppu. Eins og gerist. Verð ruku upp. Margir bæjarbúar sáu hvorki né skildu efnahagslegu forsendurnar á bak við þessum verðhækkunum. Eina sem þeir sáu að skyndilega varð allt dýrara: brauðið, mjólkin og allar hinar vörunar, sem við förum nú ekki að nefna hér. Og margir bæjarbúar hugsuðu að það væri nú meiri ósvífnin hjá þessum búðum að hækka verð og reyna að græða þegar allt fólkið hafði svo bágt.
Margir komu líka auga á alls konar óhagræði sem fylgdi því að hafa alls konar búðir. Það keyrðu alls konar trukkar um bæinn. Vörurnar komu frá mörgum ólíkum stöðum, sumar meira að segja frá útlöndum, þótt sams konar vörur væru framleiddar innanbæjar. “Það er hægt að spara. Það er hægt að ná fram hagræðingu. Samningsstaðan við birgja mun batna á augabragði!” sagði fólkið sem meinti vel.
Líkt og vera vill í lýðræðislegum samfélögum, og bærin okkar var dæmi um eitt slikt, sveiflast fylgi við hugmyndir upp og niður og dag einn gerðist það að fólkið sem meinti vel varð ofan á. Það ákvað, verandi ekki skrímsli, að kaupa alla kaupmennina út úr rekstrinum og banna síðan starfsemi nýrra verslana. Héðan í frá voru búðirnar í bænum ekki lengur alls konar. Heldur eins.
Fyrst um sinn breyttist ekki svo margt. Ögn færri trukkar keyrðu um bæinn. Hinir nýju eigendur fóru í stífar viðræður við birgja og sögðust hafa unnið mikinn sigur í fjölmiðlum. Verð á brauði og mjólk lækkaði. Verð á ýmsum öðrum vörum, sem við förum nú ekki að nefna hér, rauk upp úr öllu valdi. En þær vörur voru ekki með í vísitölukörfu hagstofu bæjarins. Svo það kom ekki að sök.
Árin liðu og margir vöndust hinu nýja fyrirkomulagi. Einstaka furðufuglar býsnuðust yfir því að geta ekki valið úr jafnmörgum tegundum ýmsum ónefndum vörum og fólk í öðrum löndum en þeir voru oftast hlegnir í kaf af öðrum merkilegri mönnum. “Er þetta nú það mikilvægasta sem þetta ágæta fólk hefur fram að færa í stjórnmálin?” Hvað með heimilisofbeldi? Hvað með húsnæðisskortinn? Hvað með alla fátæktina í Suðurbænum?” spurði fólkið sem meinti vel.
Dag einn brast aftur á kreppa. Bæjaryfirvöldin gátu nú ekki verið þekkt fyrir að bregðast við eins og gömlu búðareigendurnir. Verð stóðu því í stað, en kostnaður jókst og búðirnar fóru að skila tapi. Menn brugðu því á það ráð að hagræða. Verslunum var fækkað til muna. Þær höfðu áður verið opnar á laugardögum. Nú var því hætt. Þær voru áður opnar frá 10 til 18. Nú var sá tími styttur til 12-17. Fyrirtæki voru þess í stað kvött til að gefa fólki frí í klukkutíma á dag einu sinni í viku svo menn kæmust í búð. “Það má plana allt!” sagði ein bæjarráðskona, full bjartýni.
Áfram kvörtuðu sumir. Þeir voru kallaðir “frekjur”. Og með réttu, þótti mörgum, því bærinn var jú að reka allar þessar fínu búðir, og borgaði jafnvel með þeim, en frekjudósirnar voru samt að væla yfir því að borgarstarfsmenn væru ekki að þjóna þeim um helgar. Þar fyrir utan þá væri, jú, ein búð í bænum opin um helgar. Hún væri reyndar talsvert dýrari og almennt var talað illa um þá sem þar versluðu, en hvað með það…
Alltaf fjölgaði reglunum. Einhvern tímann var hætt að selja poka í búðum. Umsýslan með pokana var sögð of dýr. Þeir sem voru ósáttir með að þurfa að taka poka með að heiman voru kallaðir latir sóðar.
Af og til þegar mjólkin eða brauðið kláraðist þurfti að setja hámark á það hve mikið hver og einn mátti kaupa. Þetta væri, jú, niðurgreidd nauðsynjavara, hamstur væri ólíðandi.
Þeir sem vildu meina að það höfðu verið mistök eftirláta bænum sölu nauðsynja fyrst hann gat ekki uppfyllt þeirra væntingar voru kallaðir frekjur, hamstrarar og letingjar. Og slík uppnefni virkuðu sannfærandi. Sérstaklega þegar fólk sem augljóslega meinti vel henti þeim fram.
En vandinn var samt sá að þegar vel var að gáð var frekjan sem fólst í því að vilja fara í búð á laugardögum kannski ekki svo yfirgengilega mikil. Því ef markaðurinn hefði ekki verið heftur með ofbeldi væri sú þjónusta líklegast til staðar.
Allar þessar reglur sem bærinn setti voru bara ein leið til að varpa kostnaði yfir á neytendur. Allar þessar reglur juku óhagkvæmni. Smiðurinn þurfti að hætta smíða um miðjan dag til að komast í búð, til að kaupa sér brauð, mjólk og ýmislegt annað sem við skulum nú ekki nefna hér. En hann lét sig hafa það. Hann gat ekki verið þekktur fyrir að vera einhver fjárans frekja.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021