Nýleg hótelheimsókn hefur framkallað mikla og heitaumræðu. Umræðu sem stundum er reyndar merkilega laus við inntak, þó orðin séu stór og stundum ljót. Umræða án umræðu. Um leið hefur umfjöllun í kjölfarið náð utan um nokkrar grundvallarspurningar. Þar undir fellur friðhelgi og æra, tjáningarfrelsi, sóttkví og auðvitað klassískt stef um að gera konur ábyrgar fyrir feilsporum karlmanna– og síðast en ekki síst rétturinn til að vera fáviti á netinu.
Minn eigin fjölmiðill
Sennilega hefur sjaldan verið mikilvægara að eiga löggjöf sem ver friðhelgi og æru fólks. Á sama tíma og við viljum tryggja grundvallarréttindin sem felast í tjáningarfrelsi. Það er nefnilega vandlifað og allt það. Og hér vegast á grundvallarréttindi. Þeir dómar sem fallið hafa hjá Mannréttindadómstólnum í málum íslenskra blaðamanna sýnafram á nauðsyn þess að íslensk lagasetning um tjáningarfrelsi sé í samræmi við ákvæði stjórnarskrár og ákvæði mannréttindasáttamála Evrópu. Samhliða þarf löggjafinn að vera næmur fyrir þeim breytingum sem hafa orðið nú þegar margt fólk starfrækir sinn eigin litla fjölmiðil, á samskiptamiðlum, spjallsvæðum og með skrifum á kommentakerfum. Þar heldur fólk því stundum fram að samtöl í samfélagi þúsunda séu prívatsamtöl. Þetta hefur þau áhrif að venjulegt fólk getur átt von á að skyndilega standa frammi fyrir umfjöllun um sig á netinu eins og þau séu opinberar persónur. Og að ummæli og myndir af þeim dreifist á ógnarhraða um netið án þess að geta nokkuð gert.
Vettvangur umræðu dagsins er orðinn annar en hann var og æran verður kannski ekki lengur fyrir þyngstu höggunum í innmúruðum og aðsendum greinum Moggans, þar sem miðaldra menn lesa hverjum öðrum pistilinn. (Og skrifa allir með z-etu.) Vandamál sem fylgja nýjum umræðuvettvangi eru líka önnur; með nafnleysi þeirra sem tjá sig, fölskumnotendareikningum, spurningum um lögsögu þegar ummælum eða myndum er deilt t.d. af vefsvæðum erlendis og að nálgast upplýsingar um uppruna efnis frá einkafyrirtækjum sem halda utan um vefsvæði og miðla og jafnvel óvissa um hvaða lagaákvæði ná utan um ólík tilvik.
Stóra málið er samt alltaf að efni sem einu sinni fer á netið fer ekki svo auðveldlega þaðan. Dæmi um þetta myndi til dæmis vera auglýsing sem birtist á spjallsvæði þar sem því er logið að nafngreind kona stundi vændi með upplýsingum um hvar hún býr og hvernig megi hafa við hana samband. Þau orð eru ekki bara mjög meiðandi heldur geta sett þá konu beinlínis í hættu. Ærumeiðing getur nefnilega verið í formi ólíkrar tjáningar, til dæmis mynda.
Íslensk löggjöf er enn sem komið er merkilega lítið meðvituð um hvaða áhrif samskiptamiðlar hafa haft á réttarvernd fólks, til samræmis við þær kröfur sem leiðir af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í Svíþjóð hefur verið gefin út hvítbókin Integritet ochstraffskydd en tilefni hvítbókarinnar var þessi mikla breyting sem netið og samfélagsmiðlar hafa haft í för með sér á samfélagið allt og um leið á réttarvernd fólks. Danir hafa líka lagt í vinnu til að ná utan um þetta umhverfi umfjöllunar og umræðu. Þar var gefin út hvítbók um friðhelgi einkalífs og æruvernd þar sem niðurstaðan var sú að sum brot gegn æru og friðhelgi geti verið svo alvarleg að þau varði samfélagslega hagsmuni. Mál af þessum toga séu ólík, bæði hvað varðar alvarleika og eðli. Auðvitað er margt sem fólk þarf að þola, það er sárt að verða fyrir dónaskap en það er samfélagsins að bregðast við þegar brotið er gegn stjórnarskrárvörðum rétti um friðhelgi einkalífs og æru.
Við erum öll áhrifavaldar
Vefmiðlar, kommentakerfi og samskiptamiðlar hafa haft mikil áhrif á form og inntak umræðu. Við þekkjum öll að mörk einkalífs og opinbers lífs hafa breyst með mikilli notkun samfélagsmiðla. Okkur finnst núna eðlilegt að upplýsa 900 nánustu vini á instagram um hvað var í kvöldmatinn. Prívatpersónur eru ekki lengur svo prívat í heimi þar sem við erum tengd samskiptamiðlum allan sólarhringinn. Norðurlöndin eru leiðandi á heimsvísu hvað varðar notkun á internetinu og um jafnrétti kynjanna. Við erum hins vegar ekki sérstaklega vakandi um það hvað orð og myndir sem birtast á netinu geta reynst hættuleg. Við verðum fikra okkur betur áfram um öryggi fólks á netinu fyrir árásum hvers annars.
Og þar erum við erum öll almannavarnir.
- Í þágu hverra er auðlindaákvæði? - 7. júní 2021
- Síðustu 17 ár Ruth Bader Ginsburg – hvaða þýðingu höfðu þau? - 14. maí 2021
- Má gagnrýna góð markmið? - 2. apríl 2021