Í fyrradag kynnti Samband ungra sjálfstæðismanna einkar athyglisverðar tillögur sínar í ríkisfjármálum. Tillögurnar miða að því að ríkissjóður greiði niður skuldir sínar, 173 milljarða, á næstu þremur árum og noti til þess síaukin rekstrarafgang og söluhagnað af eignum sínum. Þetta eru að mati Deiglunnar góðar tillögur og það besta sem komið hefur frá SUS í langan tíma. En því miður er oft eins og góðar hugmyndir samræmist illa hinum pólitíska veruleika.
Aðeins sólarhring eftir að tillögur SUS voru kynntar sýndu tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hug sinn í þessum efnum. Menntamálaráðherra virðist ætla að gera alvöru úr áformum sínum um að ríkið reisi menningarhús hvar sem því verður við komið á landsbyggðinni og í gær var skrifað undir „samning“ milli ríkisins og Akureyrarbæjar um mörg hundruð milljóna króna framlag úr ríkissjóði í uppbyggingu menningar á Akureyri.
En svar samgöngumálaráðherra við tillögum SUS var öllu afdráttarlausara. Hann kynnti í gær nýja vegaáætlun, sem gerir ráð fyrir jarðgöngum við flest byggð og óbyggð ból á Íslandi. Kostnaður ríkissjóðs vegna þessara gangna veltur á tugum milljarða, en það er allt í lagi að mati samgöngumálaráðherra, því framundan er mikil eignasala ríkisins og því nóg af fjármunum til reiðu.
Draumurinn um skuldlaust Ísland árið 2003 virðist því álíka fjarstæðukenndur og markmiðið um fíkniefnalaust Ísland árið 2002. Góðvild flestra stjórnmálamanna eru lítil takmörk sett, en í öllu gjafaamstrinu yfirsést þeim stærsta og verðmætasta gjöfin. Hvort sem litið er til kaupmáttar fiskverkakonunnar í Granda,íbúðargreiðslubyrði barnafólksins í Breiðholti eða atgervisflóttann svokallaða af landsbyggðinni, þá er skuldlaus ríkissjóður merki um mestu góðvildina.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021