Á stórum skiltum utan á Sambíóunum hefur í talsverðan tíma verið mynd af popppoka og Pepsi. Popp og Pepsi?! Sagði enginn aldrei. Nokkru eftir hrun sömdu kvikmyndahúsin, eitt af öðru, við Ölgerðina í stað (þá) Vífilfells. Í nokkur ár þar á eftir buðu aðeins tvö kvikmyndahús á landinu upp á hina einu sönnu blöndu, popp og kók. Það voru Laugarásbíó og Bíó Paradís og í einhverja mánuði sá Laugarásbíó m.a.s. eitt um að tryggja þetta framboð. Tryggir neytendur eins og ég tóku mið af þessu vöruúrvali við val á kvikmyndahúsi, en þessari þróun varð að endingu snúið við og nú eru það einungis Sambíóin sem bjóða viðskiptavinum sínum upp á þetta undarlega kombó.
Einhverjir gleðjast eflaust yfir þessu. Pepsi Max er um þessar mundir vinsælasti gosdrykkur landsins. Neysla á sykurlausum drykkjum hefur vaxið gífurlega á undanförnum árum og neysla á sykruðum gosdrykkjum fer dvínandi. Aspartame-aðdáendur fá því þarfir sínar uppfylltar í Sambíóunum þótt ég hafi staðfestar heimildir fyrir því að einhverjir viðskiptavinir smygli rauðu kóki með sér í kvikmyndahúsin.
Við núverandi aðstæður eru margir uggandi og er af nógu að taka. Heimsfaraldur geisar og efnahagsþrengingar gera vart við sig þar sem verstu spár eru um mesta samdrátt í hartnær heila öld. Hugur margra leitar ósjálfrátt til áranna eftir hrun þar sem margt breyttist (en ekki allt til hins verra). Eitt af því sem sí-kók-þyrstur hugur minn rifjaði upp voru þessi kóklausu bíóár. Ef til vill tengdust þessar breytingar ekki beint efnahagshruninu; ég hef ekki lagst í alveg svo djúpa rannsóknarvinnu. Þessi mistök, popp og Pepsi, hafa verið leiðrétt að hluta til, að ég tel af augljósum ástæðum. Það er einlæg von mín að fleiri feti sömu braut. Og að sagan endurtaki sig ekki.
- Besta hátíðin - 9. apríl 2023
- Lýðræðið mun sigra - 2. júlí 2021
- Norræn vídd í varnarsamstarfi - 29. júní 2021