Ég fylgdist í vikunni með viðtali við Agnesi M. Sigurðardóttur biskup Íslands í Kastljósi en hún hefur að mínu mati sýnt bæði kjark og styrk í því embætti. Agnes er gjörólík forverum sínum og leggur sig mikið fram um að ná sáttum við fólk. Agnes er hæglát í fasi og vandar orð sín vel. Ef til vill er slíku fólki hættara við að verða undir með sinn málflutning á samfélagsmiðlaöld, jafnvel þótt það hafi efnislega séð meira vitrænt að segja en þau sem hæst hafa.
Það var Agnesi líkt að harma það að fólk hefði orðið fyrir óþægilegri upplifun af auglýsingu Sunnudagaskólans þar sem Jesú eða einhver sambærileg fígúra frá Biblíutímanum er sýnd með sítt hár og skegg og kvenmannsbrjóst í glaðlegri stellingu með regnbogann að baki sér. Hugmyndin var að fagna fjölbreytileikanum en myndmálið allt er annars háð túlkun hvers og eins. Það er sjálfsagt að biskup sýni tilfinningum fólks virðingu en það er ekki þar með sagt að myndbirtingin hafi verið mistök.
Mér finnst þessi auglýsing frábær og algjörlega hafa náð tilgangi sínum. Mér skilst að fleiri bíði birtingar og vona að Þjóðkirkjan hiki ekki heldur láti flakka. Af hverju er þetta svona frábært, kann einhver að spyrja? Jú, á öðrum tíma hefði ég aldrei sest niður til að skrifa pistil um Jesú. Trúmál eru í nútímasamfélagi feimnismál. Helst ekki rædd manna á millum. Það jafnast á við að koma út úr skápnum að ræða Jesú eða Guð á kaffihúsi, ég ætti nú aldeilis að vita það.
Allt í einu höfðu allir og amma þeirra sterkar skoðanir á Jesú. Hver hann væri, hvað hann boðaði og hver opinber ásýnd hans er, þótt enginn viti það raunar með vissu. Það kemur sem sagt í ljós, sama hvar fólk annars stendur í þessu myndbirtingarmáli að fólk almennt hefur enn djúpar tilfinningar til Jesú og er tilbúið að taka slaginn fyrir hann. Það er meira en gerst hefur í íslenskri þjóðmálaumræðu í óralangan tíma. Á tímum þar sem miklu meira er gert úr úrsögnum úr Þjóðkirkjunni en því góða starfi sem hún vinnur og þeim boðskap sem hún stendur fyrir.
Sagt er í Biblíunni að Guð hafi skapað manninn í sinni mynd en samt erum við ekki öll eins. Þess vegna get ég ekki skilið hvernig það getur móðgað nokkra manneskju að myndlistamenn túlki það með þeim hætti að leyfa ólíku fólki að birtast í guðslíki sem er Jesú. Nú þekki ég Jesú jafnvel og næsti maður, eins vel og allir sem hafa á annað borð til hans leitað. Ég held að Jesú hefði haft gaman af þessu uppátæki og viðbrögðunum sem það hefur vakið. Þetta er alveg í hans anda. Jesú var nefnilega friðsamur uppreisnarmaður, fyrsti pönkarinn sem hikaði ekki við að sýna borgaralega óhlýðni þegar tilgangurinn helgaði meðalið. Hann hristi upp í fólki til að vekja það til vitundar um boðskap sinn. Hann var hvorki væminn né snobbaður og tók sér stöðu með þeim sem stóðu utangarðs og aðrir litu niður á. Hann leit á vændiskonur sem jafningja og dó með þjófum. Hann lagði í rúst musteri sem voru miðstöð kúgunar valdsins. Jesú var hugrakkur og þorði að hneyksla. Hann bauð illviljuðum byrginn og fyrirgaf misgjörðir á tímum þegar miskunnarlaus refsigleði var allsráðandi. Þessi borgaralega óhlýðni varð að lokum til þess að hann er handtekinn og dæmdur til dauða. Eins og sönnum uppreisnarmanni sæmir átti hann jafnvel þá krók á móti bragði, líkt og í ljós kom þremur dögum eftir krossfestinguna.
Jesú var guðlegur maður og með engu móti hægt að taka þætti eins og ásýnd hans, kyngervi og slíkt og setja í samhengi við okkar upplifanir og hugmyndir. Viðbrögð hans í dag væru aldrei eins og mannleg hugsun mótar. Öll hans saga bendir hins vegar eindregið til þess að hann hefði ekki undir nokkrum kringumstæðum talið sig hafinn yfir að vera spegill hvers manns eða að hver sem er mætti ekki spegla sig í honum. Þannig sá ég myndina sem Þjóðkirkjan birti. Jesú býr í okkur öllum. Börnin í Sunnudagaskólanum sem sjá sennilega dag hvern veglegri túttur á áhrifavöldunum á Instagram eru fær um að skilja þetta líka. Og hvað er það eiginlega við kvenmannsbrjóst sem er svona móðgandi? Þau eru uppspretta móðurmjólkurinnar sem gefur okkur lífsnauðsynlega næringu fyrstu mánuði lífsins. Þeirra vegna hefur mannkynið lifað af. Má þá ekki segja, ef við viljum grípa til myndlíkingar, að kristin trú sé einmitt móðurbrjóstið sem gefur okkur andlega næringu út lífið?
Árið 2004 skrifaði ég pistil hér á Deigluna þar sem ég sagði mig úr Þjóðkirkjunni enda kominn með nóg af hugleysi þáverandi biskups sem var eins og á milli skips og bryggju í afstöðunni til samkynja hjónabanda. Þrátt fyrir baráttu fjölmargra presta fyrir þeim góða málstað fannst mér eins og stjórn Þjóðkirkjunnar gæti ekki með nokkru móti stigið þetta skref. Svo gerðist hið ótrúlega og sumarið 2011 gifti prestur Þjóðkirkjunnar okkur Símon í Bessastaðakirkju. Fyrir fáeinum mánuðum baðst Agnes M. Sigurðardóttir fyrirgefningar á framferði kirkjunnar í þessu máli sem hefði meitt og sært marga. Því hefur síðan verið fylgt eftir af hálfu Þjóðkirkjunnar með verkefninu „Ein saga – Eitt skref“ sem unnið er í samstarfi við Samtökin ´78. Markmiðið er að gera upp þessa erfiðu sögu misréttis innan kirkjunnar gegn hinsegin fólki. Persónulegum sögum verður safnað saman og þær gerðar aðgengilegar í kirkjum landsins. Svona á að gera upp mál og koma í veg fyrir að vond saga endurtaki sig. Það er þakkarvert og alls ekki sjálfgefið. Fyrirgefning er forsenda sáttar. Nú er kominn tími til að ljúka þessu máli, taka saman lærdóminn og gleðjast yfir því hversu hratt umbæturnar hafa orðið þrátt fyrir allt, eins og sannast með samanburði við kirkjur fjölmargra annarra landa.
Ég fyrir minn hatt er fyrir löngu búinn að fyrirgefa Þjóðkirkjunni og ganga í hana aftur. Fyrir nokkrum árum kom ég í Vídalínskirkju um kvöld til fundar við prestinn þar og það kom mér í opna skjöldu að sjá að kirkjan var smekkfull af glöðu ungu fólki sem var í uppbyggjandi félagsstarfi. Ég hef af margvíslegum tengslum mínum og fjölskyldunnar við kirkjuna og vinskap mínum við einstaka presta komist til vitundar um hversu margt gott er þar unnið, miklu meira en marga grunar. Þar fá þau sem eru einmana félagsskap, þau sem glíma við fátækt aðstoð, þar fá margir sáluhjálp sem ekki komast til sálfræðings, þar eru AA fundir og svo ótalmargt fleira samfélagsbætandi mætti telja sem enginn prestur eða starfsmaður kirkjunnar auglýsir eða hreykir sér af á Facebook. Þjóðkirkjan er ein öflugasta velferðarstofnun landsins og án hennar myndu margir þjást sem í dag fá hjálp.
Ég styð trúfrelsi og frelsi fólks til trúleysis af öllu hjarta. Aftur á móti finnst mér tími til kominn að Þjóðkirkjan njóti sannmælis og mæti ögn meiri vinsemd í opinberri umræðu, þótt allar mannlegar stofnanir megi að sjálfsögðu gagnrýna. Þá þarf hins vegar að horfa til heildarmyndarinnar. Á sínum tíma fannst mér það ill nauðsyn að ganga úr Þjóðkirkjunni og síðar kærkomið að ganga í hana aftur. Kærkomið því ég vissi allan tímann að Þjóðkirkjan var miklu stærri en það sem stjórn hennar sýndi um tíma. Jesú yfirgaf ég hins vegar aldrei og hann aldrei mig. Allir þurfa jú sitt pönk í lífið. Þjóðkirkjan hefur í dag, eins og sönnu guðshúsi sæmir, margar vistarverur og er loks óhrædd við að sýna það. Það er stórkostlegt að upplifa.
- Ég fer vestur - 8. júlí 2021
- Að friðlýsa hálfan bæ - 7. maí 2021
- Farvel Filippus - 9. apríl 2021