Gagnrýni á pólitískan rétttrúnað er stundum lítið annað en afsökun til þess að geta leyft sér að básúna óverjandi og mannfjandsamlegar skoðanir. En gagnrýni á gagnrýni á pólitískan rétttrúnað getur líka verið afsökun til þess að reyna að kæfa niður óþægilega umræðu og komast hjá efnislegri umræðu.
Það er skiljanlegt að mörgum finnist fordómatal og hatursorðræða eiga lítið skylt við tjáningarfrelsið. Sjálfur er ég að jafnaði ósammála slíkum rökum, en ég get vel fallist á að á bak við þau séu lögmæt sjónarmið og að umræðan um hversu langt tjáningarfrelsið nái sé hluti af eðlilegri togstreitu í lýðræðilsegu samfélagi. En því miður hafa kröfur um fordæmingu á vissum skoðunum smám saman náð að teygja sig lengra—og eru nú farin að hafa ýmisleg hættuleg áhrif, meðal annars á vísindin og fræðasamfélagið.
Pólitískur rétttrúnaður, sem felur í sér að ákveðnar skoðanir séu svo fjarstæðukenndar að það sé beinlínis rétt að refsa þeim sem viðra þær—hefur smám saman færst yfir á svið þar sem slík bannfæring og skoðanakúgun er hættuleg. Í umræðum um umhverfismál og loftslagsvísindi hefur tíðkast um hríð að uppnefna þá sem synda á móti straumnum „afneitara“ (e. deniers)—sem er sama hugtak og notað er yfir þá sem beita lygum og fölsunum til þess að breiða yfir stríðsglæpi nasista gegn gyðingum. Vissulega hafa óheiðarlegir vísindamenntaðir menn látið múta sér til þess að grafa undan viðleitni heiðarlegri vísindamnanna til þess að sýna fram á skaðann sem ill umgengni um náttúruna veldur. En þeir eru einnig til heiðarlegir vísindamenn sem hafa einlægar efasemdir um alls konar viðtekin sannindi. Þeir eiga ekki skilið að vera afskrifaðir eða að þaggað sé niður í þeim með uppnefnum. Þvert á móti eru mikilvægustu vísindamennirnir ekki þeir sem festa í sessi viðteknar hugmyndir heldur skora þær á hólm.
Á covid-tímum hefur pólítískur rétttrúnaður yfirtekið mikið af vísindalegri umræðu um viðbrögð við faraldrinum. Þetta er sérlega áberandi í Bandaríkjunum þar sem grímunotkun hefur orðið mjög heitt pólitískt mál. Það að efast um gagnsemi þess að ganga með grímur virðist nánast vera tekið til marks um að fólk sé einhvers konar rugludallar, en það að setja upp grímur við allar mögulegar aðstæður er álitið til marks um að maður sé góðgjarn og ábyrgur samfélagsþegn. Í Bandaríkjunum er notað hugtakið „anti-masker“ um þá sem ekki eru tilbúnir til þess að kaupa rökin um að almenn grímunotkun sé skynsamleg sóttvarnaráðstöfun. Sjónarmið og málefnaleg umræða um grímunotkun er bauluð niður af offorsi, því sannleikurin skiptir svo litlu máli þegar flokkspólitíkin hefur tekið við af þekkingarleitinni.
Þó er mjög langt frá því að vísindin hafi sýnt óyggjandi fram á að grímunotkun sé í raun góð sóttvörn. Spurningin er galopin, og reyndar bendir mjög margt til þess að áherslan á grímunotkun almennings sé misráðin. Umræðan um grímur í Bandaríkjunum er hins vegar algjörlega háð á pólitískum forsendum og engan veginn á vísindalegum grunni. Þetta er auðvitað hryllileg staðreynd því notkun á grímum í almannarými er ekki léttvæg aðgerð og getur gjörbreytt samskiptum milli fólks.
Það er áhugavert að leita svara við spurningunni um grímunotkun víðar en í hinu hápólitíska umhverfi bandarískra stjórnmála. Á vef Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar (ECDC) er til að mynda ekki mælt með almennri notkun á grímum, og verður þó að teljast ólíklegt að sú stofnun sé vilhöll undir amerísku „rugludallana“ sem neita að fara út að skokka með grímur. Á vef ECDC segir eftirfarandi um grímunotkun:
- Are face masks effective in protecting against COVID-19?
If you are infected, the use of surgical face masks may reduce the risk of you infecting other people. On the other hand there is no evidence that face masks will effectively prevent you from becoming infected with the virus. In fact, it is possible that the use of face masks may even increase the risk of infection due to a false sense of security and increased contact between hands, mouth and eyes while wearing them. The inappropriate use of masks also may increase the risk of infection.
Hvað svo sem vísindin koma til með að segja síðar, þá virðist vera ljóst að spurningin um hvort almenn notkun á grímum hjá heilbrigðu fólki sé gagnleg ráðstöfun hefur engan veginn fengið endanlegt svar. Vera má að það kunni að róa taugar ýmissa að sjá fólk í kringum sig með grímur, en það virðist að minnsta kosti alls engin innistæða fyrir þeirri umræðu sem er hávær í Bandaríkjunum, að skylda til að ganga með grímur sé svo kyrfilega sannaður vísindalegur sannleikur að það megi kaffæra og bannfæra aðrar skoðanir. Raunar er því þveröfugt farið—sæmilega gagnrýnin skoðun á sönnunargögnunum bendir frekar í þá átt að viðteknu sannindin í Bandaríkjunum, um að gott sé með grímu að ganga, séu beinlínis röng.
Sú hugsun virðist nokkuð útbreidd að í vísindunum sé hægt að finna sannleika, og eftir að sá sannleikur finnist þá sé það einhvers konar skemmdaverkastarfsemi að grafa undan honum. En oftast er tryggara að hugsa um vísindin sem leit að sannleikanum, þar sem heiðarlegar efasemdir, gagnrýni og rökræða eru í mikilvægari heldur en algjör samstaða um ríkjandi viðhorf. Um leið og það fer að þykja óeðlilegt að efast um og gagnrýna vísindalegar kenningar þá hætta vísindin að verðskulda nafnið vísindi, og verða einfaldlega grímulaus áróður.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021