Þegar tveir mánuðir eru liðnir frá hryðjuverkunum í New York er vert að huga að stöðu Bandaríkjanna um þessar stundir. Óhætt er að segja að styrkur þeirra hefur komið áþreifanlega í ljós síðan ódæðin voru framin. Bandaríska þjóðin hefur sjaldan eða aldrei verið eins samhent og nú, staðráðin í því að koma sterk til baka. Er hreint ótrúlegt að sjá hvað jafn margbrotið samfélag og Bandaríkin stendur þétt saman þegar illt steðjar að.
Í efnahagslegu tilliti er alveg ljóst að hryðjuverkin ýttu Bandaríkjunum út í samdráttarskeið sem ekki var alveg fyrirsjáanlegt þann 11. september. Frá þeim tíma hefur atvinnuleysi aukist talsvert auk þess sem vísitölur heildsölu- og smásöluverðs hafa fallið mikið. Auðvitað veit engin hvað samdrátturinn varir lengi en flestir spá því að efnahagslífið muni rétta úr kútnum frá seinni hluta næsta árs til fyrri hluta ársins 2003. Ef bandarískum dátum tekst að bola talibönum frá völdum á næstunni, eins og margt bendir til, kemur það til með að koma hjólum hagkerfisins á fullt á ný.
Undirstöður bandarísks efnahagslífs eru traustar og má nefna nokkra þætti í því sambandi. Hlutabréfaverð, sem féll gríðarlega fyrst eftir hryðjuverkin, hefur hækkað undanfarnar vikur og nú er svo komið að helstu hlutabréfavísitölurnar, Dow Jones, Nasdaq og S&P 500, eru hærri í stigum en þann 11. september. Dollarinn hefur ekkert veikst gagnvart evru og aðeins lítillega gagnvart jeni. Hann hefur haldið velli þrátt fyrir lofthernað í Afghanistan, miltisbrandsfaraldur og umtalsverðar vaxtalækkanir (raunvextir í Bandaríkjunum eru neikvæðir). Sumir spá því nú að dollarinn muni jafnvel styrkjast gagnvart helstu heimsmyntunum á næstu mánuðum þótt skiptar skoðanir séu um það. Framleiðni vinnuafls, sem mikið er horft til af fjárfestum, hefur ekki verið meiri en síðan Bandaríkin voru á hápunkti síðasta þensluskeiðs fyrir einu og hálfu ári. Þar hafa viðbrögð fyrirtækja, sem aðlöguðu sig að breyttum markaðsaðstæðum m.a. með fækkun starfsfólks, vegið þungt. En fyrirtækin eru ekki þau einu sem hafa tekið þátt í því að reisa efnahaginn við á ný því bæði stjórnvöld og Seðlabanki Bandaríkjanna brugðust hárrétt við þeirri stöðu sem upp var komin. Seðlabankinn hefur lækkað vexti grimmt undanfarnar vikur og bandarísk stjórnvöld hafa lofað að spýta fjármagni inn í efnahagslífið, t.d. í formi skattalækkana.
Seinni hluti 10. áratugarins var hreint ótrúlegur uppgangstími í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn eru staðráðnir í því að byggja áfram við þá miklu velsæld sem þeir uppskáru á tímabilinu. Eins og hvað Evrópa er háð bandaríska hagkerfinu, er sorglegt til þess að vita hvað yfirstjórnir peningamála í Evrulandi og Íslandi hafa brugðist seint við yfirvofandi samdrætti í álfunni.