Víða um höfuðborgarsvæðið eru skilti sem hvetja hjólafólk til að sýna gangandi vegfarendum tillitsemi (sem er gott) en jafnframt hjólafólkið hvatt til að láta vita af sér. Þar sem fólk hlýðir skiltum þá lendir maður iðulega í því að löghlýðnir borgarar dingli á mann meðan maður klöngrast áfram eftir göngustígum höfuðborgarsvæðisins.
Ég ætla hér með að draga í efa skynsemi þessara tilmæla. Byrjum á því að mjög margir ganga og hlaupa með tónlist eða hljóðbækur í eyrunum og munu hvort sem er ekki heyra í einhverri bjöllu. Öryggið er því falskt.
En setjum að jafnvel til hliðar. Hver eru hin ósjálfráðu viðbrögð við að heyra bjölluhljóð? Þau geta verið til dæmis að snúa sér við og skoða aðstæður. Þá getur maður misst sjónar af veginum fyrir framan og hrasa. Í besta falli dettur maður úr riþma.
En önnur algeng viðbrögð við bjölluatinu eru enn verri. Bjallan sendir nefnilega skilaboðin: “Þú ert fyrir”. Sumir bregðast við bjöllunni með því að stíga snögglega til hliðar… í veg fyrir hjólreiðamanninn sem er að taka fram úr. Skapa óþarfa hættu… til að þóknast skilti.
Í langflestum tilfellum er þetta skyldubjölluat fullkomlega óþarft, jafnóþarft og að skylda fólk til að flauta áður en tekið er fram úr á hraðbraut. Hjólreiðamaðurinn hefur fullkomna stjórn á aðstæðum. Hann sér hlauparann, sem heldur sig hægra megin á stígnum. Hann sér allt sem er að gerast fyrir framan, hann sér að hlauparinn er ekki óviti sem mun hlaupa í veg fyrir hann skyndilega, hann sér hvort það er einhver umferð á koma á móti sem kallar á önnur viðbrögð.
Hjólreiðamaðurinn ætti því bara að fara yfir á vinstri hliðina, mögulega hægja örlítið á sér og taka fram úr hlauparanum í öruggri fjarlægð. Og láta bévitans bjölluna eiga sig.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021