Menntun íslensku þjóðarinnar hefur í orði kveðnu aldrei verið meiri en nú á dögum. Réttara sagt þá hefur það hlutfall þjóðarinnar sem státað getur af formlegri framhaldsmenntun aldrei verið hærra. Næstum allir eru sérfræðingar og þeir sérfræðingar sem hafa atvinnu eru næstum allir millistjórnendur, ekki minna. Eflaust hefur þetta allt saman leitt af sér mikla framþróun.
En á sama tíma og formlegt menntunarstig þjóðarinnar hækkar stig af stigi virðist margs konar þekking á hverfanda hveli. Á meðan fleiri og fleiri geta rakið kenningar Foucaults um alsæið treysta færri og færri sér til að ákveða hvernig eigi að klæða börnin á morgnanna með tilliti til veðurs. Á meðan þeir skipta þúsundum sem geta reiknað stöðu þjóðarbúsins með tilliti til alls kyns þátta sem pistlahöfundur hefur ekki hundsvit á þá heyrir það til undantekninga að fólk geti ákveðið hvað á að vera í matinn, hvað þá eldað matinn, án þess að njóta ráðgjafar sjálfskipaðra sérfræðinga í þeim efnum. Og eftir því sem samþykktar eru fleiri stefnu og áætlanir hins opinbera í því augnamiði að búa til barnvænt samfélag, með tilheyrandi atvinnusköpun fyrir uppeldisfræðinga og aðra sérfræðinga, þá er varla til það foreldri lengur sem beitir dómgreind og almennri skynsemi við uppeldi barna sinna.
Einhvers staðar á þessari vegferð allri til aukinnar velmegunar höfum við hætt að treysta á eigið hyggjuvit. Og það er kannski ekkert skrýtið. Það er til svo mikið af hámenntuðu fólki sem segir okkur hinum hvernig gera eigi hlutina. Ekki nóg með allt reglufarganið heldur eru tilmæli og ábendingar sérfræðingaveldisins hverjum manni svo yfirþyrmandi að það er fullkomlega skiljanlegt að trúin á eigið hyggjuvit, dómgreind og almenna skynsemi fari þverrandi.
Sérfræðikunnátta hefur svo sannarlega fært okkur mikla framþróun og aukið lífsgæði óumdeilanlega. En við megum ekki gleyma því að stór hluti tilverunnar snýst um að fæða sig og klæða, sig og sína, og koma afkvæmunum til manns. Það blæs ekki byrlega fyrir samfélagi þar sem fólk er smám saman, hægt en örugglega, að glata náttúrulegum eiginleikum sínum til að sinna þessum grundvallarþáttum.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021