Á undanförnum vikum hefur nokkur umræða átt sér stað í fjölmiðlum um arkitektúr og skipulagsmál, að mörgu leyti vegna ummæla forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugsonar, um ýmis mál sem eiga rætur að rekja innan þessara greina.
Stjórnir þriggja fagfélaga sem starfa á þessum sviðum sendu þar af leiðandi út sameiginlega yfirlýsingu í síðustu viku til að bregðast við þeim atriðum sem hafa verið til umræðu. Þessi fagfélög eru Arkitektafélag Íslands, Félag íslenskra landslagsarkitekta og Skipulagsfræðingafélag Íslands. Pistlahöfundur er formaður síðastnefnda félagsins. Yfirlýsingin var sett fram til þess að hvetja til umræðu á faglegum nótum um arkitektúr og skipulagsmál. 1
Helstu atriðin er hafa verið í umræðunni undanfarið á þessu sviði, út frá ummælum forsætisráðherra, eru viðbygging við Alþingishúsið, endurbygging Valhallar á Þingvöllum, hugmynd um nýja staðsetningu Landspítalans og framtíð Reykjavíkurflugvallar.
Forsætisráðherra viðraði hugmyndir um viðbyggingu við Alþingishúsið eftir 100 ára gamalli teikningu Guðjóns Samúelssonar. Bjarki Gunnar Halldórsson arkitekt orðaði þetta vel í menningarpistli sínum á DV þann 4. apríl síðastliðinn “Myndi sjálfur Guðjón Samúelsson samþykkja það að byggt yrði eftir þessum teikningum í dag, ef hann myndi stíga niður af himnum og mæta aftur á sviðið, inn í íslenskt samfélag árið 2015?”2 Við lifum í síbreytilegu samfélagi og arkitektúr og skipulag þarf að taka mið af nærumhverfi sínu sem og samfélaginu hverju sinni. Sama á við um endurbyggingu Valhallar á Þingvöllum.
Hugmynd um nýja staðsetningu Landsspítalans, mál sem búið er að fara í gegnum lögbundna ferla og er byggð á faglegri skipulagsgerð, hvort sem fólk er sammála um staðsetninguna eður ei, er ekki til þess fallin að skapa faglega umræðu um skipulagsmál. Í tengslum við framkvæmdir á Hlíðarenda mælti forsætisráðherra svo “Grípa þarf til varna fyrir Reykjavíkurflugvöll og koma í veg fyrir að borgaryfirvöld grafi stöðugt undan flugvellinum og beiti brögðum til að losna við hann.“3
Í engum þessara tilfella var haft samband við fagfólk innan þessara þriggja stétta sem eru sérfræðingar á þessu sviðum. Kjörnir fulltrúar, þá sérstaklega forsætisráðherra hafa mikið vægi þegar þeir tjá sig um heit málefni. Auðvitað hafa allir sína persónulega skoðun eins og með staðsetningu Landspítala og framtíð Reykjavíkurflugvallar, það breytir því þó ekki að kjörnir fulltrúar þurfa að vanda mál sitt þegar þeir tjá sig.
Óvönduð ummæli draga undan heiðri þeirra stétta sem hnýtt er í hverju sinni. Málefnum sem margir sérfræðingar og fjölfræðingar hafa unnið að í langan tíma. Pistlahöfundur vill því hvetja til þess að leitað sé til fagfólks þegar umræða á sér stað um málefni þeim tengdum og minna kjörna fulltrúa á, forsætisráðherra sérstaklega, að orðum fylgir ábyrgð.
2http://www.dv.is/menning/2015/4/4/endurkoma-gudjons-samuelssonar/
3http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/04/13/framkvaemdir_hafnar_a_hlidarenda/
- Orðum fylgir ábyrgð - 22. apríl 2015
- The Pain of Paying - 9. febrúar 2015
- 105 er nýi 101 - 20. október 2014