Ég myndi seint teljast til þeirra sem kvarta undan mönnum og málefnum á opinberum vettvangi. Ég kvarta ekki í þjónum á veitingastöðum, hreyti ekki í starfsfólk stórmarkaða, bölva þjónustufólki sem talar ensku eða neitt slíkt. Það er því algjörlega úr karakter þegar ég geri það sem ég er að fara að gera núna.
En, hvernig í ósköpunum má það vera, að á Íslandi, þróuðu jafnréttis- og vellystingarsamfélagi á 21. öld, sé viðvarandi lyfjaskortur jafntíður og raun ber vitnit? Hvernig má það vera að í íslenskum apótekum séu vinsæl og víða notuð geð- og verkjalyf ófáanleg?
Lyf eru einar allra nauðsynlegustu nauðsynjavörurnar. Ekki er oft skortur á öðrum nauðsynjavörum hér á Íslandi; eldsneyti er aldrei af skornum skammti og ekki heldur tíðarvörur eða hreinlætisvörur og matvæli.
Hvernig má það þá vera að vandamálið sé svo viðvarandi, að lyfjafræðingar í apótekum á Íslandi segi við mann að lyf séu ófáanleg bara eins og ekkert sé eðlilegra?
“Nei, það er búið. Ófáanlegt á landinu,” sagði einhver lyfjafræðingurinn við mig um daginn, bara eins og hann væri að tjá mér að fótanuddtæki séu uppseld í ELKO. Hann deplaði ekki auga. “Heyrðu, fyrirgefðu vinur, ég þarf þessi lyf – þau geta ekkert verið bara búin!” langaði mig að segja við hann.
Og hvers vegna er þetta svona? Erum við ekki að kaupa nóg inn af lyfjum, eru ekki framleidd nóg lyf? Er misnotkun lyfseðilskyldra lyfja svona mikil og áhættan að hafa of mikið af lyfjum í umferð hverju sinni of mikil? Eða eru lyfjafræðingar kannski bara latir við að framkvæma vörutalningu?
Ég skora á hvern sem er; formann félags lyfjafræðinga, verslunarstjóra Lyfju, forstjóra Alvogen eða hæstvirtan heilbrigðisráðherra, að stíga fram og svara fyrir þetta kjaftæði!
- Mexíkósk langa, rjómalöguð Mexíkósúpa, brauð og salatbar - 23. júlí 2021
- Opið bréf til lyfjafræðinga sem kunna ekki að telja - 15. júní 2021
- Graði-Rauður - 17. apríl 2021