Við eigum að fara að lögum. Ef við erum ósátt við lögin eigum við að breyta þeim. Ekki að brjóta þau.“
Þannig er þetta oft sett fram. Í lýðræðissamfélögum. Lög eru sett. Smám saman breytast viðhorf og einhver kemur og lætur breyta lögunum. Svo fara allir að haga sér öðruvísi.
En þetta er gríðarlega oft á hinn vegin. Fólk verður ósátt við lögin. Hættir að fylgja þeim. Hættir að tilkynna lögbrot annarra. Lögreglan hættir að fylgja lögunum eftir. Börn sjá foreldra sína hunsa þau og heil kynslóð vex úr grasi með vanvirðingu fyrir tilteknum lagabókstaf. Síðan stígur einhver fram og vill breyta lögunum til samræmis við breytt viðhorf.
Mikið af þessu snýst um fíknir og kynhegðun. Bjórdrykkju, heimabruggun, sambúð með fólki af sama kyni, viðhorf til nektar. En dæmin eru fleiri. Það er ekki þannig það fólk setur ítarleg lög um internetið eða rafskútur og síðan verða þessi fyrirbæri til. Fyrirbærin verða til í lagalegu tómarúmi og lagaumgjörðin fæðist síðar.
Margir frumkvöðlar eru því oft lögbrjótar. Fólk sem ýmist pælir ekki í því hvort það sé að brjóta lögin eða heldur að það komist upp með það. Hinir löghlýðnu sitja þægir, bíða átekta, láta kjósa sig á þing og reka smiðshöggið á einhverja lagasetningu þegar samfélagið er hvort sem er komið þangað í afstöðu sinni. En frumkvöðlarnir ólöghlýðnu eru oftast fólkið sem í raun á heiðurinn skilinn.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021