Í gær ferðaðist ég á milli landa í fyrsta sinn síðan kóvídkrísan hófst síðasta vetur. Það var býsna merkileg upplifun; tómir flugvellir, grímuklæddir farþegar, allt lokað. Daginn áður hafði ég fylgst með knattspyrnuleik í sjónvarpinu þar sem engir áhorfendur voru viðstaddir en yfir útsendinguna voru spiluð gerviviðbrögð ímyndaðra áhorfenda við því sem til tíðinda bar í leiknum.
Því hefur verið haldið fram að við lifum á fordæmalausum tímum. Í raun er samt ekkert fordæmalaust við þessa tíma nema viðbrögð yfirvalda um allan heim – sem eru öldungis dæmalaus. Útgöngubann og landamæralokun sýnir mátt og megin stjórnmálamanna en þeir sem raunverulega virðast eitthvað vita um skaðsemi þessarar áður óþekktu veiru hafa hvatt til vægari aðgerða, og sem betur fer hefur sú stefna orðið ofan á í okkar samfélagi – til þessa, í það minnsta.
Það er ekkert sem bendir til þess að þetta ástand sé tímabundið. Farsóttir munu halda áfram að herja á heimsbyggðina með reglulegu millibili, sagan segir okkur það. Slíkar farsóttir munu taka sinn toll, eins og sjúkdómar og önnur óáran gerir og hefur allt tíð gert. Auðvitað þarf að gera ráðstafanir þegar svona háttar til en við getum samt ekki lifað lífinu í þeim tilgangi einum að komast af. Við getum ekki verið svo hrædd við dauðann að við verðum of hrædd til að lifa.
Lífið er sólskin, myrkur og mugga. Framtíð sem ekki felur í sér fjöldasamkomur og mannamót, þar sem listamenn heilla fjöldann með hæfileikum sínum, framtíð sem ekki felur í sér faðmlög við annað fólk um nætur sem taka öllum töfrum fram, framtíð sem ekki felur í sér náin tengsl milli kynslóða – það má ekki verða.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021