Það hefði flokkast sem býsna alvarlegt tilfelli hjá flestum sálfræðingum að hitta manneskju í upphafi árs 2020 og hlusta á hana lýsa hegðun sem þykir nokkurn veginn sjálfsögð í upphafi árs 2021.
„Ég mæti helst ekkert í vinnuna og bið bara fólk að hringja sig inn í gegnum forrit sem heitir Zoom. Mér finnst best að panta mat af netinu og bið um að hann sé skilinn eftir fyrir utan dyrnar. Ef ég neyðist til að fara út í búð þá spritta ég mig áður en ég fer inn og set upp andlitsgrímu, stundum nota ég hanska, og ég spritta mig þegar ég fer aftur út. Stundum keyri ég alla leiðina heim með grímuna. Ég hitti eiginlega engan og ef ég hitti fólk þá tek ég ekki í hendina á heinum, faðma engan og hef sem viðmið að hafa sem svarar tveimur metrum á milli mín og næstu manneskju. Mér líður auðvitað best ef allir eru með grímu og fæ smá kvíða ef ég sé einhvern nálgast án grímu á almannafæri. En ekkert alvarlegan, þá passa ég bara upp á tvo metrana eða fer útúr aðstæðunum.
Ég hef reyndar ekki fundið fyrir neinum veikindum sjálfur en ég fylgist mjög grannt með tölfræði um útbreiðslu smitsjúkdóma og hef mikinn áhuga á ólíkum tegundum bóluefna, og býsna sterkar skoðanir á því ferli sem notað er til þess að prófa slík efni og samþykkja til notkunar.
Um þessar mundir er ég mjög áhugasamur um raðgreiningar á veirum, og hef sérstakar áhyggjur af spike-próteinum, sem ég veit ekki almennilega hvað gera en hef samt illan bifur á.
Ég hef eiginlega ekkert farið út fyrir póstnúmerið mitt síðustu fjóra mánuði, en fór út á land í síðasta sumar og er með hálfgert samviskubit yfir því. Ég hugsa að ég fari ekkert til útlanda næstu misserin, kannski næstu árin, af því ég vil alls ekki smitast af veiru og enn síður bera veirusmit inn til Íslands. Ég stunda mjög litla hreyfingu en er búinn að horfa mjög mikið á Netflix og Amazon Prime. Ég tala líka við vini mína aðallega í gegnum Zoom og fæ mér stundum í glas á svona fjarhittingum. Það svalar félagslegum þörfum mínum.
Annars er ég bara mjög góður.“
Lýsingin á reyndar ekki við mig sjálfan, en það þarf ekki að leita lengi til þess að finna fólk sem hefur, ýmist vegna eigin ótta eða af tillitsemi við aðra, umturnað lífi sínu með þessum hætti vegna covid. Ástandið hefur nú varað í næstum heilt ár og víða um heim má sjá skýr merki þess að almenningur er smám saman búinn að gefast algjörlega upp á því að hlusta á tilmæli og fyrirmæli. Hvort sem nýir varíantar veirunnar séu raunverulega miklu meira smitandi en aðrir þá virðast smitleiðirnar vera orðnar býsna greiðfærar víða, jafnvel þótt opinberar takmarkanir á hegðun fólks verði sífellt strangari.
Þegar þessu ástandi slotar, sem mun gerast á endanum, tekur við tímabil sem mun líka verða ólíkt því sem áður var. Þegar veiran hættir að vera álitin samfélagsleg ógn, mun margt fólk samt sem áður óttast hana. Eins öfugsnúið og það hljómar þá finnur fólk stundum öryggi í því að hafa tiltekna ógn á heilanum og eftir því sem slíkt ástand varir þeim mun fleiri munu eiga erfitt með að aðlagast því þegar samfélagið hættir að hverfast um veiruógnina.
Eftirköst langvarandi einangrunar og skorts á nánd og kærleiksþeli munu ekki jafna sig umsvifalaust með bólusetningu. Þegar spennitreyja er losuð eftir langvarandi kæfandi faðmlag kemur í ljós að hreyfigeta hefur minnkað og vöðvar rýrnað. Svipað gæti gerst um heim allan á næstu mánuðum. Flestir verða frelsinu fegnir en í löndum þar sem stjórnvöld hafa básúnað út sífellt óhugnanlegri hræðsluáróður munu margir sitja eftir með sár á sálinni; og eiga erfitt með taka aftur þátt í samfélaginu.
Á Íslandi hafa samskipti opinber í tengslum við faraldurinn að jafnaði á grundvelli virðingar. Þríeykið, Rögnvaldur og gestir upplýsingafunda hafa frá fyrstu dögum talað við almenning eins og það sé viti borið og fullorðið fólk. Hið sama má segja um stjórnmálafólkið okkar. Þetta er blessunarlegt, en samt líður mörgum illa.
Víða annars staðar hafa stjórnvöld farið þá leið sem virðist auðveldari til skamms tíma—að höfða til ótta og frekar en yfirvegunar. Fyrir þá sem trúa sífellt ógnvænlegri hræðsluáróðri verður leiðin til eðlilegs andlegs ástands erfiðara.
Andlegar, tilfinningalegar og efnahagslegar afleiðingar af ástandi síðustu mánaða verða, þegar upp er staðið, líklegast mun afdrifaríkari en beinar afleiðingar veirusjúkdómsins. En þær afleiðingar er erfiðara að sjá og mæla. Þó er mikilvægt að að gera sér grein fyrir því að þessar afleiðingar eru raunverulegar og langvarandi. Í glímunni við þær mun ekki síður reyna á forystu og stjórnvisku heldur en gert hefur síðustu mánuði. Viðvarnandi hræðsluáróður víða um heim mun skilja eftir sig sár. Miklu uppybiggilegri eru skilaboðinu sem Víðir slúttaði mörgum upplýsingafundum á: „Verum góð við hvert annað.“
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021