Lífsgæði þjóða eru ekki síst metin út frá gæði heilbrigðisþjónustu og aðgengi almennings að þjónustunni. Enginn vafi leikur á því að við Íslendingar eru í hópi þeirra þjóða sem fremst standa í þeim efnum.
Tvennt kemur þar einkum til: Annars vegar ríkir almenn samstaða um það að allir eigi rétt á heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Hins vegar höfum við borið gæfu til að nýta krafta einkaframtaksins þar sem því er við komið.
Því miður eru og hafa verið blikur á lofti í þessum efnum. Aukin andstaða við einkaframtak hjá þeim sem nú fara með stjórn heilbrigðismála er þegar farin að skerða heilbrigðisþjónustu sem landsmönnum ætti að standa til boða. Sú andstaða virðist drifin áfram af pólitískri kredduhugsun fremur en nokkru öðru.
Þrátt fyrir að öðru sé haldið fram þá eru einkarekstur í heilbrigðiskerfinu og aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu ekki ósamrýnlegir hlutir. Þvert á móti fer þetta tvennt mjög vel saman. Með því að nýta einkaframtakið eykst fjölbreytni og þjónustuframboð fyrir þá sem þurfa. Með því að nýta krafta allra er hægt að sinna fleirum og sinna þeim betur.
Og er það ekki markmiðið, að sinna öllum sem þurfa og sinna þeim betur?
- Besta hátíðin - 9. apríl 2023
- Lýðræðið mun sigra - 2. júlí 2021
- Norræn vídd í varnarsamstarfi - 29. júní 2021