Þessa vikuna hefur nýsköpun í ýmsum formum verið fagnað í margs konar viðburðum undir merkjum „Nýsköpunarvikunnar.“ Þetta góða framtak er nú haldið í fyrsta sinn, en verður vonandi fastur liður í framtíðinni; rétt eins og Hönnunarmars og fleiri slíkir viðburðir sem minna okkur á hversu margt fólk vinnur alls konar framúrskarandi vinnu hér og þar í samfélaginu.
Nýsköpun á sér vettvang víða, þar á meðal í stórum fyrirtækjum, í háskólum og stofnunum. En fyrst og fremst er nýsköpun drifin áfram af framkvæmdagleði einstaklinga og mikilvægasti farvegur hennar mótast af þeim sem trúa svo einlægt á hugmyndir sínar að þeir taka áhættu til þess að láta reyna á þær. Það er mikilvægt í líflegu samfélagi að það sé eftirsóknarvert að helga starfskrafta sína einhvers konar sköpun—hvort sem um er að ræða listverk, fyrirtækjarekstur eða þekkingarleit.
Samfélagið þarf að hampa hróðri þeirrasem þora að brjótast út úr föstu mynstri og gera eitthvað nýtt. Þetta er ekki alltaf einfalt, því kynlegu kvistirnir passa gjarnan ekki mjög vel inn í þau form sem þægilegast er að eiga við í samfélaginu Að byggja upp samfélag sem byggist á hugvitsdrifinni verðmætasköpun snýst því ekki síst um að í landinu sé ríkjandi jákvætt hugarfar í garð þeirra sem þora að taka áhættur—að raunveruleg virðing sé borin fyrir þeim sem ákveða að vera frumkvöðlar og reyna að skapa nýja hluti; jafnvel þótt flestar slíkar tilraunir endi án sýnilegs árangurs til skamms tíma. Og jafnvel þótt slíkir einstaklingar eigi það til að vera örlítið erfiðir og orginal.
Þess vegna er sérlega mikilvægt að til staðar sé skilningur á því að raunveruleg nýsköpun hlítir ekki neins konar fyrirframgefnum skipulagi. Því miður er ekki hægt að hanna ferla sem tryggja að góðar hugmyndir kvikni eða þær séu framkvæmdar vel. Það er hins vegar hægt að gera sitthvað til þess að auka líkurnar á því að nýsköpun og frumkvöðlastarf þrífist og laði að sér öflugt og hæfileikaríkt fólk.
Nýsköpunarvikan, og áhersla Viðskiptaráðs á nýsköpun á viðskiptaþingi síðustu viku, eru jákvæð teikn um þá áherslu á nýsköpun sem mikil samstaða virðist vera að skapast um. Og það er einnig gríðarlega mikilvægt að umfjöllun um nýsköpun feli í sér aukinn skilning á því að öll nýsköpun, hvort sem er á sviði menningar eða atvinnulífs, er kaótískt ferli, sem ekki er auðvelt að teikna upp fyrirfram—þótt stundum sé hægt að gera tilraun til þess eftirá.
Raunveruleg nýsköpun þarfnast því fyrst og fremst frelsis og umburðarlyndis. Og passar það ekki ágætlega við það hvernig flestir myndu vilja hafa samfélagið?
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021