Í morgun vaknaði ég, kveikti ljósið, tannburstaði mig, tékkaði á netinu og fékk mér kaffi. Allt gríðarlega hversdagslegar athafnir og eitthvað sem ég hef gert alla mína fullorðins tíð án þess að hugsa mig um hvaðan rafmagnið, vatnið, internetið eða kaffið kom. Ekki eina einustu mínútu. Þetta bara kemur. Það eina sem ég þarf að hafa í lagi er bara að greiðsla berist til réttra aðila á réttum tíma (greiðslukerfi – enn eitt nauðsynlegt kerfi sem bara er þarna).
Svo koma krísur eins og þessi í vetur og þá virðumst við allt í eina breytast í algjöra villimenn. Svona eins og þegar hálf heimsbyggðin ákvað á sama tíma að kaupa bara klósettpappír. Nú er ég ekki sálfræðingur eða hef kynnt mér nýjustu fræðin en það voru ótrúlega margar kenningar um hvernig stæði á þessu. Ein kenningin gekk út á að það væri huggun í að kaupa eitthvað mikið og stórt. Það hefði bara verið tilviljun að það hefði verið klósettappír. Nútímaheilinn skellti sér í krísuástand og þurfti að færa heimilinu eitthvað mikið og eitthvað stórt. Risa-stórt. Nútímamaðurinn er víst með fullt af svona rugli sem hann ræður ekkert við og birtist á allskonar skrítinn hátt. Þannig pakka mörg okkar alltof mörgum nærbuxum í ferðatöskuna þegar við erum að fara í ferðalög eins og við ætlum að skíta á okkur tvisvar á dag, við trúum því að fólk eigi bara eftir fatta hversu miklir vitleysingar við raunverulega erum og höldum að maðurinn við hliðina á okkur sé hamingjusamari, ríkari, skemmtilegri og fallegri en við. Nútímamaðurinn er sem sagt bara korter af alheimssögunni frá því að vera api í jakkafötum.
Á hinum endanum þá hefur nútímamaðurinn þessa gríðarlegu trú á því að þarna úti sé eitthvað batterí sem sé eins konar ofur-ríkis-mamma, sem á að sjá um allt á milli himins og jarðar. Við eigum aldrei að þurfa að hafa áhyggjur af neinu, ríkis-mamman sér um það. Allt sem manni finnst sjálfsagt á að vera það áfram, hvort sem um er að ræða að geta farið í búðina og verslað matinn okkar (sem er allt annað en sjálfsagt) eða á fordæmalausum tímum eigi að vera til ársbirgðir af DNA-prófunar-pinnum svo Kári geti prófað okkur. Nútímamaðurinn verður reiður og hneysklaður ef þetta er ekki klárt sama hversu klikkað það er.
Svona til að bæta gráu ofan á svart, þá er allt orðið svo flókið. Það má ekki lengur gefa hundi bein, það á víst að tannbursta ketti og “börn” á menntaskólaaldri fá víst miða (mögulega ekki á pappír) heim frá kennaranum. Ef ég mæti með reiðufé í banka er ég víst mögulega glæpamaður, horfi á línulega dagskrá (þú veist bara það sem var á dagskrá á RÚV – hvað sem það var) og fermingarbarnið frændi minn veit ekki hvað tölvupóstur er en getur víst sent mér eitthvað TikTok (hvað sem það nú er) – hann veit ekki hver Sesar er en telur sig vera í góðri stöðu því frændi hans þekkir ekki Alicia Keys.
Það er sem sagt ekki einfalt að vera nútímamaður. Við erum samt lánsöm, alveg sama hversu mikið við tuðum; Lífið hefur aldrei verið betra. Fyrir 100 árum snérist lífsbaráttan nákvæmlega um hana – lífsbaráttuna. Lífið var kannski einfaldara í þá daga – þú vannst bara með það sem þú fékkst úthlutað og hafðir ekki um annað að velja. Okkur hér á Íslandi hefur lánast ótrúlega vel og við höfum búið til óska samfélag – sem væri öfundsvert hvar sem er í heiminum eða á hvaða tíma sem er. Þegar allt kemur til alls er það ekki sjálfsagt
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020