Millivegur

Margir kjósa þann lífstíl að búa og starfa nálægt miðbæ þar sem auðveldara er að nýta sér fjölbreyttari ferðamáta. Ég geri enga athugasemd við þann lífsmáta, en það eru aðrir sem kjósa sér aðra leið í lífinu. Margir, sennilega tugþúsundir, kjósa að búa í úthverfum borgarinnar. Sumir vilja jafnvel eiga sinn eigin garð og ala börn sín upp í meiri víðáttu í útjaðri borgarinnar. Allt eru þetta skattgreiðendur og þegnar borgarinnar sem eiga rétt á athygli líkt og þeir sem búa miðsvæðis.

Þróun borgarsamfélags og bæjarbrags er óumflýjanlegur raunvöruleiki. Þegar sá sem þetta skrifar flutti ásamt fjölskyldu sinni til Reykjavíkur um miðjan 9. áratuginn þá var annar bragur á borginni en nú er. Vissulega er gaman að sjá gamlar ljósmyndir sem rifja upp barnæsku manns og í Facebook hópnum „Gamlar ljósmyndir“ birtast reglulega myndir af borginni frá þessum tíma. Undir þessar myndir er stundum skrifuð ummæli í þá átt að allt hafa verið betra og að þróun borgarinnar sé öll á hin versta veg auk þess sem nýju húsin þykja oft ljót og þétting byggðar jafnvel kennd við skrattann sjálfan.

Þessu er ég algjörlega ósammála. Vissulega er smekkur fólks fyrir fegurð misjafn, og það er alveg rétt að sumt tekst betur en annað. Sjálfur er ég uppbyggingarsinni og fagna slíkri þróun og sama gildir um fjölbreytta ferðamáta. Mér finnst gaman að sjá þá þróun t.d  með lagningu fallegra göngustíga, nytsamra hjólastíga og framgang góðra almenningssamganga.

Margir kjósa þann lífstíl að búa og starfa nálægt miðbæ þar sem auðveldara er að nýta sér fjölbreyttari ferðamáta. Ég geri enga athugasemd við þann lífsmáta, en það eru aðrir sem kjósa sér aðra leið í lífinu. Margir, sennilega tugþúsundir, kjósa að búa í úthverfum borgarinnar. Sumir vilja jafnvel eiga sinn eigin garð og ala börn sín upp í meiri víðáttu í útjaðri borgarinnar. Allt eru þetta skattgreiðendur og þegnar borgarinnar sem eiga rétt á athygli líkt og þeir sem búa miðsvæðis. 

Í dag er nánast ómögulegt að komast inn í þennan lífstíl í Reykjavík nema að vera með mjög rúm fjárráð, eða að þekkja bankastjórann. Framboð á slíkum eignum er lítið sem ekkert en í dag eru ekki nema 24 eignir (parhús, raðhús og einbýli) til sölu í póstnúmerum 109 til og með 113. Verðið hefur rokið upp og afleiðing af slíku geta valdið stéttskiptri búsetu.

Annað sem fylgir þessum lífstíl er þörf á bíl, hjá því verður ekki komist. Einstaklingur sem býr t.d. í Árbænum vinnur hugsanlega í miðbæ Reykjavíkur. Á leiðinni heim úr vinnu þarf hann að koma við í matvörubúð, sækja í hreinsun og finna réttu skrúfuna í byggingarvöruverslun. Síðan þarf að skutla krakkanum í fótboltaleik sem er í Hafnarfirði og nýta ferðina til þess að fara í Sorpu. Þetta er bara það sem við gerum, þetta er lífið.

Af umræðunni að dæma mætti halda að borgarbúum mætti skipta upp í þessa tvo hópa. Því er ég þó ekki sammála, enda bý ég þarna mitt á milli og gæti hugsað mér báða kostina. En þau sem með völdin fara og þiggja fjárráð frá öllum þegnum sínum þurfa að hafa hagsmuni allra að leiðarljósi. Ekki dugir að falla að öðrum kostinum, þrengja að bílaumferð og forðast skipulagningu á nýjum hverfum eins og virðist vera stefnt að.

Stundum líður eins og ég sé hamstur í tilraunastofu. Samkvæmt því sem ég best veit þá mun taka 15 ár að klára borgarlínuverkefnið og allir vita að stofnanaáætlanir taka mun lengri tíma. Samt er strax byrjað að  þrengja að umferð, fækka bílastæðum og lækka hámarkshraða. Síðan eru götur ekki sópaðar svo að við sjáum öll hvað við erum miklir sóðar og að við lærum að meta kosti nýrra samgöngumáta. Ég er ekki búinn að ákveða hvenær ég yfirgef þessa jarðvist, en mér sýnist í fljótu bragði að ég klári dæmið sem tilraunadýr sem ég bað ekki um að vera, án þess að vita hvort tilraunin heppnaðist. Mikilvægt er að fara bil beggja og ef fólk heldur að ekki sé hægt samræma markmið og mismunandi mat á lífsgildum þá er fólk komið of langt í aðra áttina.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.