Skaðleg áhrif fíkniefna eru staðreynd sem enginn deilir um. Það er þarft og verðugt verkefni að draga sem mest úr skaðlegum áhrifum af neyslu þessara efna og stór þáttur í því að er að fíklar fái viðeigandi meðferð við sjúkdómi sínum í heilbrigðiskerfinu. Stærsti þátturinn er eftir sem áður að koma í veg fyrir að ungt fólk ánetjist þessum skaðlegu efnum.
Í skýrslu starfshóps heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu frá 2016 er mjög horft til þess árangurs sem náðst hefur í forvörnum meðal barna og ungmenna hér á landi á síðustu árum og áratugumi, þar sem rannsóknir sýna að verulega hefur dregið úr notkun ólöglegra vímuefna og neyslu áfengis og tóbaks í yngri aldurshópum. Segir í skýrslunni að sá árangur sem náðst hefur hér á landi í forvörnum sé eftirtektarverður í alþjóðlegum samanburði. Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir meðal annars:
Starfshópurinn er samstíga í þeirri afstöðu sinni að varlega eigi að fara í breytingar á núverandi stefnu. Ræður þar mestu að markverður árangur hefur náðst í því að draga úr neyslu vímuefna hjá ungu fólki og hafa sérfræðingar haldið því fram að þar hafi áhrif að um sé ræða ólöglegt athæfi. Þau sjónarmið voru uppi innan starfshópsins að hætta sé á því að „normalisering“ þessarar neyslu hafi þau áhrif að fleiri ungmenni telji óhætt að prufa hin ólögmætu vímuefni og það hafi í för með sér aukna hættu á því að þau ánetjist efnunum. Hér ræður einnig miklu það álit íslenskra og erlendra sérfræðinga í læknavísindum að skaði af neyslu vímuefna sé þeim mun meiri eftir því sem neytendur eru yngri.
Skýrsla starfshóps heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu
Gerði starfshópurinn það að tillögu sinni að efla forvarnarstarf enn frekar þannig að haldið yrði áfram þeirri vinnu sem skilað hefði góðum árangri í vímuefnaforvörnum hjá börnum og ungmennum. Sérstaklega var lagt til að skipulagt íþrótta- og tómstundastarf þurfi að vera aðgengilegt öllum börnum og ungmennum. Huga þyrfti bæði að fjölbreytileika framboðs sem og aðgengi, t.d. með tilliti til kostnaðar. Einnig væri mikilvægt að koma til móts við börn sem byggju við brotið bakland og fengju því ekki þá aðstoð frá foreldrum sem önnur börn fengju til þátttöku í slíku starfi.
Íþróttafélög gegna samfélagslega mikilvægu hlutverki og það vill oft gleymast þegar athyglin beinist að afrekum keppnisliða og einstakra íþróttamanna. Ávinningur flestra af þátttöku í íþróttum er ekki risasamningur við erlent stórlið heldur líkamlegt heilbrigði, félagslegur þroski og jákvæð reynsla. Sá rammi sem íþróttastarf myndar um líf ungs fólks er mikilvægur þáttur í forvörnum og því að koma í veg fyrir að unga fólkið okkar villist af leið.
- Besta hátíðin - 9. apríl 2023
- Lýðræðið mun sigra - 2. júlí 2021
- Norræn vídd í varnarsamstarfi - 29. júní 2021