Á haustin gerist alltaf eitthvað stórkostlegt. Það er líkt og haustvindarnir blási burt áhyggjum gærdagsins og við blasir nýtt skólaár þar sem allir reyna að leggja sig fram og gera betur en á síðasta ári. Hugmyndin með skólakerfinu, og ég held lífinu öllu raunar, er að með hverju árinu lærir þú eitthvað nýtt og nytsamlegt og vaxir þar af leiðandi sem mannvera. Endurtekið er skólakerfið samt svipt þessu tækifæri.
Nýverið birtist í samráðsgátt stjórnvalda hugmyndir að breytingu á aðalnámskrá grunnskóla. Í þeim felst að kennsla í íslensku og náttúrufræði aukist til muna en val verði í staðinn nánast þurrkað út. Hér er um afturför að ræða til þeirrar stefnu að stjórnvöld segi skólum hvað skuli kenna og hve lengi skuli kenna það, svo öll börn landsins fá nákvæmlega jafn margar mínútur í íslensku, ensku og íþróttum.
Við búum við menntakerfi sem var skapað til að þjónusta fyrstu iðnbyltinguna. Kerfið okkar er sem sagt búið að lifa af þrjár iðnbyltingar. Nú er hin fjórða komin og enn erum við með menntakerfi sem minnir á færiband. Margir frábærir hlutir eru þó gerðir í kerfinu í dag og einn sá allra besti er að í gildandi námskrá er gert ráð fyrir því að kennarar, þeir sem eru næstir nemendunum, geti nýtt hluta hvers árs í valáfanga. Þar fá kennarar og skólar sjálfstæði til að greina hvað sé þeirra nemendum fyrir bestu og leyfa nemendunum að bæta sig og blómstra á eigin forsendum, ár frá ári.
Vandi þess að að yfirvaldið segi skólunum fyrir verkum er að stjórnvöld þekkja ekki öll börn landsins. Þau geta ómögulega sagt til um hvað hvert barn þarf á að halda til að vaxa sem mannvera. Það er mun líklegra að kennari hvers barns geti það. Því er sorglegt að sjá að menntamálaráðherra ætli sér að taka þann möguleika af kennurum og börnunum okkar og hörfa til baka í fyrstu iðnbyltinguna.
Ég get ekki talið skiptin sem menntamálaráðherra hefur sagt að leggja þurfi meiri áherslu á iðnnám og að engin ríkisstjórn hafi gert meira en sú sem nú situr. Þegar horft er á gjörðirnar, og þá sérstaklega nýjustu vendingar ráðherrans, verður þó að segjast að hljóð og mynd fara ekki saman.
Það væri óskandi að ferskir vindar fengju að blása um menntamálaráðuneytið og ráðherra myndi nýta tækifærið til að gefa skólunum enn meira frelsi – til að þeir geti komið betur til móts við nemendur sína – en svo virðist sem haustvindarnir blási ekki þar.
- Óður til Dollýar - 29. júlí 2021
- Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna - 9. júní 2021
- Þegar mennskan hverfur - 26. apríl 2021