Fyrstu umferð í efstu deild íslandsmótsins í knattspyrnu sumarið 2020 lauk í gær. Það er óvenjulegt að hefja ekki leik fyrr en stuttu fyrir jónsmessunótt en Covid faraldurinn hefur haldið knattspyrnufólki landsins af grasinu núna snemmsumars.
Eitt af því sem hefur verið mikið til umræðu eru hugmyndir um lengra tímabil.
Ástæður fyrir því að það hefur verið til skoðunar eru nokkrar. Þar má helst nefna lengsta undirbúningstímabil í heimi en það líða sjö mánuðir frá síðasta leik hvers tímabils þar til fyrsti leikur hefst á nýju tímabili. Þetta leiðir af sér að leikmenn fá minni reynslu af því að spila á Íslandi miðað við að spila annarsstaðar. Þannig hefur Heimir Guðjónsson sem þjálfaði í Færeyjum síðustu tvö ár þar sem spilað er lengur en á Íslandi talað um að Íslendingar séu að dragast aftur úr.
Þrjár leiðir hafa helst verið nefndar sem leiðir til þess að lengja tímabilið:
- Fjölga liðum úr 12 í 14 og fjölga þannig að lið leiki 26 umferðir
- Fækka liðum niður í 10 og leika þrjár umferðir þannig að hvert lið leiki 27 leiki
- Skipta í efri og neðri deild sem spili úrslitakeppni. Það gæti verið ein umferð (27 leikir) eða tvær (32 leikir)
Hugmyndin um að fjölga liðum í deildinni kom frá Akranesi þar sem forsvarsmenn ÍA lögðu til að liðum í efstu deild á Íslandi væri fjölgað upp í fjórtán og síðar meir upp í sextán. Helsti veikleikinn við þessa hugmynd er að þá fjölgar leikjum sem skipta litlu máli og það gæti valdið því að áhuginn á leikjunum minnkar. Það hefur verið nefnt að þetta hjálpi liðum af landsbyggðinni að vera í efstu deild en það er ekkert sem segir að það verði ekki lið af höfuðborgarsvæðinu tækju viðbótarsætin.
Færri lið og þreföld umferð gæti einmitt fækkað liðum utan af landi og líka fjölgað leikjum sem skipta litlu máli fyrir liðin.
Þriðja leiðin, úrslitakeppni, er sú sem er lang áhugaverðust.
Þá er deildinni skipt í tvennt eftir hefðbundnar 22 umferðir og tekin úrslitakeppni. Sex efstu liðin spila þá hvert á móti öðrum og sex neðstu liðin spila hvert á móti öðru. Það er bæði hægt að spila einfalda eða tvöfalda umferð og fjölgar þá um fimm eða tíu leiki.
Margar deildir notast við þetta fyrirkomulag eins og Danska deildin, Belgíska deildin og Gríska deildin.
Kostirnir eru meðal annars þeir að það fjölgar stórum leikjum. Stærstu félögin taka stóra leiki undir seinni hluta tímabilsins. Þetta eru leikir sem hafa yfirleitt verið með hvað flesta áhorfendur og væru því þessir leikir líklegir til þess að draga að sér áhorfendur.
Í neðri hluta deildarinnar verður til hörku barátta um að falla ekki. Hver leikur verður upp á líf og dauða og spennustigið eftir því. Það er spurning hvort það vanti hvata fyrir félög sem lenda í neðri hluta deildarinnar en eru of langt fyrir ofan fallsætið en ein hugmynd gæti verið að leggja eitt evrópusætið undir sigurvegarana þar.
Með betri aðstöðu, fleiri knattspyrnuhöllum og gervigrasvöllum hefur skapast tækifæri til þess að spila meiri knattspyrnu. Það ætti alltaf að vera markmið fyrir bæði iðkendur og áhorfendur. Þegar leikjum er fjölgað ætti markmiðið að vera að fjölga gæðaleikjum sem er þá líklegra að bæta leikmenn til lengri tíma.
Það verður spennandi að sjá hvernig knattspyrnuhreyfingin fetar næstu skref í þessu máli en vonandi verða hugmyndir um úrslitakeppni ofan á.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021