Á dögunum fengum við fjölskyldan vini okkar í heimsókn sem við höfðum ekki séð lengi og þegar við hittumst, þá spyr vinkona mín hvort hún megi faðma mig. Það verður stutt hik og svo segi ég já er það ekki bara, erum við ekki bara komin þangað. Þetta faðmlag vakti með mér mjög góða tilfinningu og ég fann hversu mikið ég hef saknað þess að faðma fólkið mitt.
Árið 2020 hefur verið erfitt fyrir margra hluta sakir, fjölmargir hafa misst vinnuna, aðrir hafa veikst og aðrir þurft að sitja heima í sóttkví. Enn aðrir unnið heima svo mánuðum skiptir og verið í takmörkuðum samskiptum við annað fólk nema kannski helst yfir internetið. Nánast öll ferðalög erlendis hafa lagst af ásamt viðburðum innanlands svo ekki sé nú minnst á samkomutakmarkanir sem hafa litað líf okkar allra daufari litum. Allar þessar breytingar vegna heimsfaraldursins hafa haft margþætt áhrif á grunnþarfir okkar sem manneskjur.
Það er áhugavert í þessu samhengi að rifja upp þarfapýramída sálfræðingsins Maslow sem er fimm þrepa pýramídi sem felur í sér skilgreiningu á sammannlegum þörfum okkar.
1) Fyrsta þrepið snýst um líkamlegar þarfir mannsins fyrir vatn, súrefni, mat, skjól, svefn o.s.frv. Þessar grunnþarfir þurfa að vera uppfylltar svo manneskjan komist á næsta þrep.
2) Annað þrepið gengur út þá þörfina fyrir öryggi, s.s. persónlegt öryggi, atvinnu, heilsu o.fl. Fyrstu tvö þrepin eru bæði flokkuð sem grunnþarfir mannsins.
3) Þriðja þörfin er félagsþörf, að tilheyra, að tengjast, fjölskyldan, vinátta og nánd. Þessar þarfir eru flokkaðar sem sálfræðilegar þarfir menneskjunnar.
4) Þörfin fyrir virðingu er í fjórða þrepinu og snýst einnig um sálfræðilegar þarfir s.s. frelsi, virðingu, viðurkenningu og styrk.
5) Fimmta og efsta þrepið er svo það sem kallast sjálfsbirting eða möguleikar manneskjunnar til að vera besta útgáfan af sjálfri sér (þörf fyrir lífsfyllingu)
Áhrif heimsfaraldursins á þarfir okkar eru eflaust talsvert meiri en við kannski gerum okkur grein fyrir þar sem bæði grunnþörfunum okkar og sálfræðilegum þörfum hefur ekki verið mætt nema að takmörkuðu leiti. Við getum verið sammála um að fyrstu þörfinni er hægt að mæta víðast hvar í heiminum þrátt fyrir faraldurinn. Öryggisþörfinni hefur hins vegar verið ógnað annars vegar vegna veirunnar sjálfrar og hættunnar við að smitast ásamt því að búa við skerta heilsu eða jafnvel deyja. Jafnframt hafa sjaldan eins margir misst vinnuna á eins skömmum tíma og atvinnuöryggi er ekki mikið og margir hafa áhyggjur af fjárhagslegri afkomu sinni.
Sálfræðilegar þarfir orðið illa úti í faraldrinum
Félagsþörfin er kannski sú þörf sem hefur orðið einna verst úti og en henni hefur ekki því miður ekki verið gefinn mikill gaumur í umræðunni. Þar hafa samkomutakmarkanir gert það að verkum að fjölskyldur, vinir og vinnufélagar hafa ekki náð að hittast. Við vitum einnig að eldra fólkið hefur upplifað mikla einangrun ásamt fólki í áhættuhópi en að öllum líkindum eru það mun fleiri sem þjást vegna þessara takmarkana sem við heyrum aldrei um. Svo má nú ekki gleyma skortinum á nándinni en faðmlaginu var nánast útrýmt 2020. Ég tala nú ekki um stöðu einhleypra í þessum faraldri, samúð mín er með þeim. Guð sé lof fyrir Tinder myndi nú kannski einhver segja því tækifærin til að kynnast nýju fólki hafa væntanlega aldrei verið takmarkaðari en síðastliðið ár.
Ljóst er að þarfir okkar hafa ekki verið uppfylltar í faraldrinum og við vitum ekki enn hverjar afleiðingarnar þess verða. Munum við getað faðmað fólkið okkar á þessu ári án þess að biðja um leyfi?
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020