Myndir frá 6. janúar 2021, þegar hópur stuðningsmanna Trumps ruddi sér leið inn í bandaríska þingið, gætu haft djúpstæð áhrif. Sú staðreynd að illa skipulagður skríll stöðvaði störf þingsins á viðkvæmum tíma í valdaskiptum forseta var í huga flestra óhugsandi. Fréttamyndir af vanstilltu fólki inni í hjarta bandarísks stjórnkerfisins eiga eftir að lifa i huga fólks um ókomna tíð og hafa áhrif á hugmyndir heimsins um vestrænt lýðræði.
Versta við atburðina var að forseti Bandaríkjanna blés í glæður samsæriskenninga um að lýðræðislegar kosningar, grundvöllur stjórnkerfisins, væru svindl. Þegar bál efasemda var byrjað að blossa um öll ríkin, bætti hann í og hvatti stuðningsmenn sína til að safnast saman og mótmæla. Í þeim mikla tilfinningahita sem við þetta skapaðist fór allt úr böndunum og jafnvel þó að takmark Trumps hefði ekki verið að stuðningsmenn hans ryddu sér leið inn í þingið, mátti segja sér að þetta gæti farið eins og það fór.
Þó að færa megi fyrir því rök að hugmyndin um vestrænt frelsi hafi veikst í hugum einhverra er mikilvægt að halda því til að haga að lýðræðið í Bandaríkjunum stendur enn sterkt. Staðreyndin er nefnilega sú að þrátt fyrir allt þá stóðst stjórnkerfið áhlaupið sem við urðum vitni að síðasta miðvikudag. Þeir varnaglar sem voru settir í stjórnarskrá Bandaríkjanna virkuðu.
Forseti Bandaríkjanna, sem samþykkir lög fyrir hönd ríkisins og er æðsti yfirmaður öflugasta hers veraldar, reyndi hvað hann gat til að halda völdum og mistókst. Stjórnarskráin sem fyrirskipar lýðræðislegar kosningar og þrískiptingu valds sannaði enn og aftur gildi sitt. Dómstólar vísuðu kvörtunum um kosningasvindl frá og þingið staðfesti niðurstöður kosninganna.
Því mun Joe Biden taka við sem réttkjörinn forseti Bandaríkjanna 20. janúar næstkomandi.
Ef lýðræðið stæði ekki á traustum grunni mætti vel ímynda sér að öðruvísi hefði farið. Nóg er af dæmum forseta annarra ríkja sem lengja kjörtímabil sín, hagræða úrslitum kosninga eða bjóða fram leppa til að leysa sig af tímabundið. Fjölmiðlar slíkra ríkja myndu ekki segja af því fréttir, hvað þá leggja óháð mat á það sem þar færi fram. Líklega færu slík myrkraverk fram án þess að við heyrðum nokkuð af þeim.
Einkenni sterkra lýðræðisríkja er einmitt öflugir fjölmiðlar sem segja óháðar fréttir af málefnum líðandi stundar og kikna ekki undan þrýstingi valdhafa. Þrátt fyrir að bandarískir fjölmiðlar séu ekki fullkomnir verður ekki annað sagt en að þeir hafi einnig staðist þetta áhlaup.
Ef við stígum aðeins til baka og skoðum atburðina í eðlilegu samhengi, réðst fámennur hópur inn í þinghúsið og vanmáttur öryggisgæslunnar þar leiddu til þess að þingið stöðvaðist. Það er of djúpt í árina tekið að segja að atburðirnir hafi veikt vestrænt lýðræði. Þetta var skríll sem framdi hryðjuverk og ætti atburðurinn að vera afgreiddur í því ljósi. Þingið kláraði sín mál seinna um daginn þegar lögreglan var búin að ná tökum á ástandinu.
Ef við lesum meira úr þessum atburðum en tilefni er til gefum við þessum vanstillta hópi fólks eða leiðtoga þeirra, sem ber enga virðingu fyrir undirstöðum vestrænna lýðræðisríkja, allt of mikið vægi sem þau eða aðrir geta nýtt sér þegar fram líða stundir.
Höldum því til haga að bandaríska þjóðin lýsti vilja sínum í kosningum síðastliðinn nóvember, þingið staðfesti þá niðurstöðu og nýr forseti tekur við 20. janúar. Það er það sem skiptir máli.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021