Að fylgjast með atburðarás, jafnvel um lítilmátlegustu hluti, án þess að hafa nokkra hugmynd um hvernig hún endar er yfirleitt nóg til að valda hverjum manni hugarangri. Að fylgjast með atburðarás í beinni útsendingu þar sem raunhæfur möguleiki virðist vera á valdaráni í öflugasta lýðræðisríki heims er hugarangur í veldisvexti. Það var óraunverulegt að fylgjast með æstum múgnum ráðast inn í þinghúsið í höfuðborg Bandaríkjanna á miðvikudaginn. Þótt að minnsta kosti fimm manns hafi látið lífið í atganginum má segja að betur hafi farið en á horfðist.
Það var kannski ekki alveg ófyrirséð að hinni skammarlegu forsetatíð Donalds Trumps skyldi ljúka með því að embættið yrði keyrt dýpra ofan í forarsvaðið en dæmi eru um í sögunni. Áeggjan forsetans fráfarandi til fylgjenda sinna, ekki bara sama dag og árásin var gerð, heldur síðustu sex vikur, var bein árás á bandarískt lýðræði. Trump er umdeildur á áður óþekktum mælikvarða. Það er ekkert að því að vera umdeildur stjórnmálamaður. Þannig var Ronald Reagan til að mynda, framan af sínum ferli. En hann var umdeildur vegna þess að hann fylgdi stefnumálum sínum fram af miklu harðfylgi en – ólíkt Trump – þá var það ekki stefnan í sjálfu sér að vera umdeildur, að skapa úlfúð meðal þjóðarinnar, að egna þjóðfélagshópum hverjum gegn öðrum. Þetta hefur hins vegar stundum verið háttur annarra leiðtoga í löndum sem ekkert eiga sameiginlegt með Bandaríkjunum þegar kemur að lýðræði og frelsi.
Þegar óþjóðalýður ræðst að löggjafarsamkomunni, hvort sem það er að beinni eða óbeinni áeggjan annarra eða af eigin hvötum, þá er það árás á lýðræðið. Það á við um atburðina í Bandaríkjunum sl. miðvikudag og það á við um árásirnar á Alþingi og einstaka stjórnamálamenn í janúar og febrúr 2009. Það er glæpsamlegt að hvetja til slíkra verka en það er litlu skárra að réttlæta eða styðja með einhverjum hætti þannig framferði.
Fráfarandi Bandaríkjaforseti hefur verið til háborinnar skammar að mestu leyti frá því að hann tók við embætti. Sterkt stjórnskipulag, rík lýðræðishefð og öflugar valdastofnanir valda því að möguleikar forseta hverju sinni til skaðaverka eru mjög takmarkaðir. Oft hefur því verið bölvað hversu litlu „góðum“ forsetum tekst að koma í verk vegna tregðu í kerfinu en þessi tregða er auðvitað kjarni þessrar stjórnskipunar. Það er alltaf og í öllum tilvikum betra að erfitt sé að gera góða hluti en að auðvelt sé að koma illu til leiðar. Það er kjarni þrískiptingar ríkisvaldsins.
Friðsamleg valdaskipti eru aðalsmerki lýðræðisins, eins og réttilega var bent á í nýlegum pistli hér á Deiglunni. Og þótt lýðræðið sé viðkvæmt þá hefur bandarískt lýðræði núna sýnt styrk sinn þegar mest á reið. Jafnvel þegar valdamesti maður heims lét í raun einskis ófreistað til að hindra lögmæt valdaskipti þá höfðu lýðræðislegar stofnanir betur. Árásin á þinghúsið og viðbrögðin við henni urðu þau straumhvörf sem nauðsynleg voru. Skipta þar ekki minnstu máli viðbrögð samflokksmanna og náinna samstarfsmanna forsetans, einkum Pence varaforseta, sem neitaði að fylgja forsetanum út á foraðið þegar tólfunum var kastað.
Enn eru ellefu dagar þar til Donald Trump lætur formlega af embætti forseta en engum dylst að hans tími er liðinn. Eftir atburði liðinnar viku eru hann áhrifalaus og einangraður. Hann á skilið fyrirlitningu samherja sinna jafnt sem andstæðinga. Úr því sem komið er skiptir hins vegar mestu fyrir Bandaríkin, bæði inn á við og gagnvart heimsbyggðinni, að valdaskiptin gangi friðsamlega fyrir sig, að stigin verði skref til samheldni frekar en sundrungar.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021