Stríð er volað helvíti. Um þetta vitna reynslusögur nær allra sem komist hafa lífs af úr hildarleikjum stríðsátaka. Jú, vissulega eru þeir sem tapa og þeir sem vinna, í sumum stríðum að minnsta kosti, en í öllum tilvikum hafa stríð fátt eitt í för með sér nema ómældar hörmungar, ekki bara fyrir þá sem taka beinan þátt heldur líka og ekki síður fyrir þá sem engan hlut eiga að máli.
Tilgangsleysi stríðsátaka er á stundum yfirþyrmandi. Eitt skýrasta dæmið úr samtímasögunni er átökin á litlu landssvæði í vestanverðri Evrópu árin 1914-1918 þegar fyrri heimsstyrjöldinni geisaði. Ólíkt síðari tíma stríðum varð almenningur í hinum stríðandi ríkjum ekki mikið var við átökin á meðan þau geisuðu en hörmungarnar á vígvellinum voru þeim mun meiri.
Milljónir ungra manna féllu í forarpyttunum án þess að víglínan færðist að neinu marki árum saman. Herir stríðandi fylkinga byggðu auðvitað á rógróinni stéttaskiptingu og þess vegna kom það hlut þeirra sem ætt- og auðlausir voru að hlaupa upp úr skotgröfunum og fram vígvöllinn að skipunum þeirra sem hærra voru settir, ekki bara í hernum heldur í samfélaginu. Þar beið ungu mannanna í flestum tilvikum ekkert nema dauðinn, hvort sem hann tók á móti þeim í formi byssukúlu, sprengjuregni eða eiturgasi.
Mannfallið var ósegjanlegt en það breytti engu fyrir stríðsreksturinn vegna þess að staða þeirra sem réðu málum var hin sama. Þeir gátu áfram setið og drukkið te með fólki af betri stéttum, rætt um heimsku og illsku ráðamanna í þeim ríkjum sem átt var í stríði við, slegið sér á brjóst og sagt að ekkert yrði gefið eftir. Það er auðvelt að gefa ekkert eftir þegar aðrir bera af því fórnarkostnaðinn.
Stundum eru stríð óumflýjanleg, því miður. Stundum standa menn frammi fyrir illsku og árásargirni sem þeirra geta ekki látið yfir sig ganga. Ein leið til forðast stríðsátök er að setja lög og reglur sem ríki þurfa að fylgja og sérstakt regluverk fyrir úrlausn ágreiningsefna. Alþjóðakerfið sem við þekkjum í dag var byggt á þessari hugsun að lokinni seinni heimsstyrjöldinni. Þótt kerfið sé vissulega ekki gallalaust er það til þessa það besta sem mönnum hefur dottið í hug.
Á latínu er til spakmæli sem einnig er vert að hafa í huga: Si vis pacem, para bellum. Á íslensku myndi þetta útleggjast: Ef þú vilt frið, skaltu búa þig undir orrustu. Friður hefur ríkt í okkar heimshluta í 75 ár. Íbúar Evrópu og Bandaríkjanna, milljarður manna, býr við hervernd öflugasta varnarbandalags allra tíma, Atlantshafsbandalagsins. Viðbúnaður þess og fælingarmættur hefur einnig átt stóran þátt í að varðveita friðinn, ekki síður en alþjóðakerfið sem slíkt.
Stríð er volað helvíti og við eigum sem manneskjur að leita allra ráða til að afstýra því.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021