Sveitarfélögum er skylt að leysa úr bráðum húsnæðisvanda þeirra sem geta það ekki sjálfir. Sú skylda hverfur ekki þótt einstaklingur neyti vímuefna, löglegra eða ólöglegra og eigi við fleiri vandamála að etja.
Þessi lagalega skylda kemur skýrt fram í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga (sjá grein 46) og hefur verið áréttuð af umboðsmanni Alþingis. Hún er ekki valkvæð. Sveitarfélag þarf ekki lögum samkvæmt að reka knatthús eða listasafn. En það þarf lögum samkvæmt að leysa úr bráðum húsnæðisvanda þeirra sem geta það ekki sjálfir.
Að undanförnu hefur aukinn þungi verið að færast í svokallaða “Húsnæði fyrst” nálgun, sem gengur út á að útvega fólki húsnæði óháð því hvort það sé edrú eða á leið í meðferð. Eldri nálgun var að hvetja fólk til breyttrar hegðunar með því að skilyrða húsnæðisaðstoð við ákveðnar framfarir, t.d. edrúmennsku.
Nýlegar rannsóknir hallast heldur að “Húsnæði fyrst” hugmyndafræði. Þær eru líklegri til að skila einstaklingum bata og virðast ábatasamari fyrir samfélagið. Þótt hvata-aðferðir séu almennt sniðugar virka þær síður á fólk í miklum vímuefnavanda.
Sveitarfélögin eiga að leysa bráðan húsnæðisvanda fólks sem getur það ekki sjálft. Það þýðir raunar ekki að þau þurfi að reka öll úrræðin sjálf. Þau gera það heldur ekki. Það eru til sjálfstæðir aðilar sem reka áfangaheimili fyrir fólk á ólíkum stöðum í lífinu. Þar leigir fólk herbergi og borgar með almennum og sérstökum húsnæðisbótum. Hugsanlega þyrfti að hækka þær síðarnefndu í einhverjum stökum tilfellum enda gæti þurft meiri mannskap þegar um einstakling í talsverðri neyslu er að ræða.
Önnur leið er að bjóða upp á svokölluð smáhýsi fyrir fólk sem er tilbúið að reka eigið heimili en gæti lent í árekstrum í sambúð í fjölbýli með öðru fólki. Þetta er því skaðaminnkunaraðgerð sem líklegri er að skila einstaklingnum bata en aðrar lausnir sem í boði eru.
Þar sem allar þessar húsnæðislausnir skjóta upp kollinum mæta þær gjarnar áhyggjum af hálfu nánustu nágranna. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt og engin ástæða til að hæðast af þeim áhyggjum eða gera lítið úr þeim. Þær trompa hins vegar ekki lagalega skyldu sveitarfélaga til að leysa úr bráðum húsnæðisvanda þeirra sem geta það ekki sjálfir.
Í því ljósi bera raddir þeirra stjórnmálamanna sem annað hvort taka undir alla andstöðu gegn smáhýsum (eða öðrum neyðarúrræðum fyrir heimilislaus) eða kynda undir slíkri andstöðu ekki vott um mikla ábyrgð, framsýni, mannúð eða áhuga á skaðaminnkun. Valkostirnir við smáhýsin eru nefnilega ekki svítur á Hilton eða Nordica. Valkostirnir eru gjarnan: dýna í gistiskýli, handahófskennt bílskúrsgólf, bekkur við sjó, klósett í bílastæðahúsi eða runni í almenningsgarði.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021