Aðstæðurnar núna minna um margt á hrunið fyrir rúmum 11 árum. Rót vandans nú er reyndar ólík því sem var þá, kórónaveiran samanborið við allherjar þurrð á lánsfjármörkuðum eftir tímabil sem einkenndist af miklum skuldsetningum og ævintýramennsku. Afleiðingarnar eru áþekkar, tekjur hrynja, atvinnuleysi rýkur upp og starfsemi stórs hluta fyrirtækja í lanidnu er nánast lömuð. Þetta mun hafa veruleg áhrif á fjölskyldur og einstaklinga í landinu.
Nú, rétt eins í hruninu, hefur verið farið í ýmis konar aðgerðir til að reyna að aðstoða fólk og fyrirtæki. Á árunum 2008-2010 var boðið upp á alls konar úrræði sem sum reyndust vel og önnur síður. Ef það ætti að draga einhvern lærdóm af þeirri reynslu þá væri hann líklega á þá leið að það þarf að vinna hlutina hratt og það næst að bjarga ýmsum, öðrum ekki og einhverjir verða betur settir en ella vegna úrræðanna.
Tíminn er af skornum skammti
Mistökin í hruninu voru hvað þetta tók allt saman langan tíma, sífellt var verið að bíða og slá hlutum á frest, gera eitthvað smá til þess að átta sig á því skömmu síðar að það dugði ekki til. Í svona aðstæðum er mikil skoðun og langir ferlar ekki í boði heldur verður að vinna hratt. Ef að hvert tilfelli – hver fjölskylda og hvert fyrirtæki – ætti að fá hárrétt úrræði, þá myndi það taka svo langan tíma að kynna sér hvert og eitt mál að ekkert yrði eftir til að bjarga þegar hin fullkomlega útfærðu úrræði yrðu loksins tilbúin.
Fjármálaráðherra hafði sennilega þessa reynslu úr hruninu í huga á dögunum þegar hann kynnti aðgerðir stjórnvalda með þeim orðum að það væri betra að gera meira strax heldur en að gera of lítið of seint. Í aðgerðum stjórnvalda núna er margt gott, það á að fara í ýmis konar átaktsverkefni og tímabundnar tilfærslur á gjöldum og skyldum, en í grunninn voru þetta aðallega tvö stór atriði. Annars vegar að bjóða fyrirtækjum að setja starfsmenn á hlutastörf, sem er góð leið til að gefa fyrirtækjum tækifæri til að koma sér í gegnum þetta ástand án uppsagna, eða að minnsta kosti með mun færri uppsögnum en ella. Hitt stóra atriðið eru brúarlán til fyrirtækja sem ríkissjóður ætlar í gegnum Seðlabankann að ábyrgjast að helmingi. Þetta á að ná til fyrirtækja sem voru í góðum rekstri en urðu fyrir tímabundnu áfalli vegna kórónaveirunnar.
Þetta seinna atriði vekur hins vegar upp ýmsar spurningar um hvort verið sé að fara í sömu sporin og í hruninu. Fyrir dæmigert fyrirtæki, sem hefur lent í því að tekjurnar detta nánast alveg niður núna yfir mars, apríl og líklega maí og jafnvel lengur, þýðir þetta að það eigi að geta fengið lán í bankanum, þrátt fyrir þessa stöðu.
Lán fyrir tapi
Þótt fyrirtækjum sé gert kleift að draga saman seglin tímabundið þá eru engu að síður töluverð útgjöld sem falla til. Ef hlutastarfaleiðin er farin þá þarf fyrirtækið engu að síður að greiða hluta launanna, sem það á væntanlega ekki fyrir og þarf að fjármagna með lánsfé. Sama á við um afborganir af lánum, tækjum, leigu osfrv., þetta þarf að fjármagna með lánsfé. Skattgreiðslum er hægt að fá frestað en á endanum falla þær í gjalddaga og fyrirtækið þarf að eiga fyrir þeim þá.
Að vera lífvænlegur
Bankarnir munu með öðrum orðum veita fyrirtækjum sem uppfylla engin skilyrði fyrir því að fá lán fyrirgreiðslu. Talað er um að finna lífvænleg fyrirtæki en það er hægara sagt en gert. Fyrirtækjarekstur hefur almennt verið þungur síðustu tvö ár og reksturinn víða í járnum 2018 og 2019. Matið á því hver er lífvænlegur og hver ekki getur aldrei verið fullkomið – á að horfa til þess hverjir skiluðu hagnaði í fyrra og hverjir ekki? Hvað með þá sem voru með mikið viðhald á tækjum og fjárfestingar í sinni starfsemi á síðasta ári og þar af leiðandi minni hagnað? Eða þá sem gerðu sinntu hvorki fjárfestingum né viðhaldi og sýna enn betri rekstrarniðurstöðu en efni standa til?
Það er sérstök og flókin staða fyrir fjármálafyrirtæki og gengur í raun gegn öllum viðmiðum um útlán banka. Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari hefur bent á að í hruninu var það beinlínis talið refsivert þegar bankar veittu lán án fullnægjandi trygginga þar sem það olli bankanum fjártjónsáhættu. Þetta er ákveðið „catch 22“ – því það er beinlínis skilyrði fyrir lánveitingunni að lántakinn geti einmitt ekki borgað, að minnsta kosti ekki í bili. Þótt ríkið ábyrgist helminginn þá er hinn helmingurinn ótryggður nema viðkomandi fyrirtæki geti lagt fram veð eða aðra tryggingu, en ef svo er þá myndi viðkomandi fyrirtæki líklega hvort eð er geta bjargað sér um fyrirgreiðslu.
Ljóst er að björgunarpakkinn beinist ekki síst að ferðaþjónustufyrirtækjum sem eru mjög illa leikin um þessar mundir – fram hefur komið að heildarfjöldi ferðamanna í landinu núna sé á bilinu 100-500. Starfsemi þessara fyrirtækja gengur almennt ekki út á að eiga mikla fastafjármuni, velta á tækjum er hröð og oft í gegnum eignaleigur og eignir til að veðsetja eru oft af skornum skammti. Bankarnir munu þurfa að klóra sér í kollinum yfir þessu – það er augljós samfélagsleg pressa á þeim að veita lánin og búið að hliðra til með ýmsum hætti svo það geti gengið eftir, t.d. með því að draga úr fébindingu þeirra og bankaskattinum en að sama skapi getur það aldrei talist “good banking” að lána þeim sem fyrir liggur að getur ekki borgað nema kannski seinna ef staðan breytist mjög hratt til batnaðar.
Bjartsýnt veðmál
Þessi leið gengur með öðrum orðum út á eins konar bjartsýnt veðmál um að rekstur fyrirtækjanna taki hratt við sér aftur og að ljósin kvikni aftur og þá eiginlega af slíkum krafti að fyrirtækin geti þá ekki bara staðið við allar sínar reglulegu skuldbindingar að nýju heldur geti gert enn betur og gert upp brúarlánin, enda er það hugsað til skamms tíma. Það væri vonandi og óskandi að þetta gangi eftir en er alls ekki víst, margt bendir til þess að það muni taka talsverðan tíma þar til hlutirnir komast í samt lag aftur. Við bætist svo að rekstur margra fyrirtækja hér hefur almennt verið þungur árin 2018-2019 áður en þetta áfall gekk yfir.
Innkoma ríkisins með brúarlánunum er augljóslega af góðum hug en því má velta fyrir sér hvort lán með ríkisábyrgðum dugi til, hver staða bankanna sé og hver sé tilgangurinn að setja þessa aðstoð í búning lána þegar margt bendir til þess að langstærstur hluti þessara fjármuna muni tapast.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021