Ferðaþjónusta hefur fært Íslandi mikla velsæld á undanförnum árum. Það er einfalt að horfa á tölur og sjá hvernig ferðaþjónusta óx í að verða sú atvinnugrein sem hefur fært mestar útflutningstekjur inn í þjóðarbúið og skapað flest ný störf. En ferðaþjónusta hefur einnig aukið lífsgæði Íslendinga umfram það sem ætla mætti í strjálbýlasta landi í Evrópu þar sem 360 þúsund sálir deila með sér 103 þúsund ferkílómetrum lands.
Í fyrra komu tæplega tvær milljónir ferðamanna til Íslands sem þýðir að það voru um 34 þúsund gestir á landinu hvern dag að meðaltali að skapa eftirspurn eftir vörum og þjónustu og greiða fyrir með erlendum gjaldeyri inn í íslenska hagkerfið.
Vöxtur í ferðaþjónustu hefur haft í för með sér uppbyggingu á innviðum og þjónustu út um allt land. Ferðamenn aðstoða heimamenn í fámennum bæjum og þorpum að viðhalda eftirspurn til að tryggja framboð á þjónustu á borð við verslanir, veitingastaði og afþreyingu. Aukin eftirspurn eftir þjónustu hefur svo gert fólki kleift að skapa sér atvinnu í heimabyggð og aukið fjölbreytni í atvinnulífi á mörgum svæðum þar sem áður var aðallega útgerð og landbúnaður til staðar.
Covid-19 heimsfaraldurinn hefur haft gríðarlega mikil áhrif á ferðaþjónustu á heimsvísu og á fyrstu sjö mánuðum ársins komu 65% færri ferðamenn til Íslands samanborið við sama tímabil í fyrra. Íslendingar hafa að sama skapi ekki haft kost á því að ferðast til útlanda í sama mæli og venjulega og margir ákváðu að ferðast þess í stað um sitt eigið land í sumar og njóta þeirrar uppbyggingar á þjónustu sem hefur átt sér stað í öllum landshlutum.
Ísland hefur markað sér stöðu sem áfangastaður á heimsvísu og ferðamenn gefa landinu mjög góða einkunn sem sjá má að Ísland er með eitt hæsta meðmælaskor allra landa í heiminum. Meðmælaskor merkir hve líklegt fólk er til að mæla með Íslandi sem áfangastað. Allt yfir 50 þykir framúrskarandi og yfir 70 þykir á heimsmælikvarða. Meðmælaskor Íslands per mánuð í fyrra var frá 73 til 85.
Þegar draga fer úr áhrifamætti Covid-19 og ferðatakmörkunum léttir þá er mikilvægt að laða ferðamenn til landsins á ný til að þessi atvinnugrein megi áfram skapa verðmæti og atvinnu víða um land. Vonandi verður þetta tímabil til þess að við Íslendingar förum að kjósa landið okkar sem áfangastað í meira mæli en fyrr og styðjum þannig við íslenska ferðaþjónustu.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021