Undirritaður ólst upp við það að á forsíðu Morgunblaðsins voru ávallt erlendar fréttir. Þetta var hefð á blaðinu sem var einungis brotin þegar einhver stórtíðindi urðu á Íslandi. Það var þannig hluti af heimsmyndinni að byrja daginn á því að horfa út í heim og fyrstu fréttirnar voru af alþjóðamálum en í kjölfarið var litið á landsmálin. Þann annan nóvember árið 2002 ákváðu forsvarsmenn blaðsins að afnema þessa hefð og hafa innlendar jafnt sem erlendar fréttir á forsíðunni.
Frá þeim tíma má segja að tveir hlutir hafi átt sér stað sem hefur áhrif á það hvernig við skynjum heiminn. Annars vegar stórjókst neysla okkar á upplýsingum á netinu þar sem magn upplýsinga margfaldaðist en samhliða því hafa tekjur innlendra fjölmiðla dregist saman, þeim hefur fækkað og efnistök þeirra hafa að mörgu leiti orðið fábreyttari. Farin er Lesbókin með mörg hundruð orða umfjöllun um nýútgefna ljóðabók og myndlistasýninguna sem opnaði um helgina en engin efnisflokkur hefur farið verr út en erlendar fréttir sem eru því sem næst í útrýmingarhættu.
Hvað er vandamálið gæti einhver spurt. Við höfum aldrei haft jafn gott aðgengi af öllum fjölmiðlum heims. Við getum lesið fréttir úr öllum heimshornum á tungumáli heimamanna og fengið beina innsýn inn í stöðu mála.
Vandinn felst í því að fæst okkar hafa gríðarlega mikinn tíma aflögu til þess að fara vandaðan hring um helstu fjölmiðla heims, fá báðar hliðar málsins, fara aðeins yfir frumheimildir og mynda okkur svo faglega, vandaða skoðun á málinu.
Langmest lesnu fréttirnar eru innlendar fréttir af fólki. Við höfum áhuga á því sem gerist í okkar nærumhverfi fyrir fólk sem við könnumst við. Þetta er ekki eitthvað sérkenni Íslendinga heldur er þetta sama staðan um allan heim. Til þess að upplýsa fólk almennt um stóru drættina í heimsmálum hefur hingað til þurft að pakka þeim innan um íslenskar fréttir. Vandinn er sá að þessir stóru drættir eru að verða sífellt smærri.
Á komandi tíu árum er fyrirséð að tveir þriðju hlutar millistéttar heimsins verði í Asíu og að stórborgir í Afríku verði á meðal þeirra stærstu í heiminum. Það er raunveruleg hætta á því að þessi tíðindi muni alfarið fara framhjá okkur vegna þess að við horfum ekki lengra en yfir á næsta hól að sjá hver hafi verið að fá vinnu hjá nýja sprotafyrirtækinu, mataræði viðkomandi og hvernig tvíhöfðinn hefur það eftir æfingu dagsins.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021