Hver vegur að heiman er vegurinn heim. Það er hin rómantíska hugmynd um lífsgönguna. Flest okkar fá að vaxa úr grasi í þeirri vissu að hvernig sem veröldin vendir sér öll og snýst þá sé alltaf hægt að snúa heim þegar svo háttar til. Eflaust er margt af því sem við höldum að sé hugrekki í raun ekkert annað en sannfæringin um að allt fari að vel lokum, leiðin liggi heim að lokum.
Auðvitað er heima ekki það sama í huga okkar allra. Hjá einhverjum er það tiltekinn staður, heimabærinn eða jafnvel æskuheimilið. Hjá öðrum er það landið, Ísland er land þitt og allt það. Hjá sumum er það fjölskyldan og frændgarðurinn, og kannski vinirnir. Og svo auðvitað tengist þetta allt. Að vera heima er kannski samsuða alls þessa, það sem við viljum að það sé á hverjum tíma.
En þetta eru forréttindi. Hjá mörgum er þessu alls ekki þannig farið. Sagan og samtíminn segir okkur að hlutskipti milljóna er á annan veg. Að vegurinn að heiman sé ekki vegurinn heim og leiðin liggi alls ekki heim, heldur eitthvað allt annað, út í óvissuna. Allt þetta fólk hefur samt sömu grunnviðhorf, það lítur á umhverfi sitt, heimabæinn, æskuheimilið, fjölskyldu, ættingja og vini sem heimili, allt þetta er eins mikið heima fyrir þessu fólki og það er fyrir okkur.
Við þurfum því ekki að láta okkur detta það í hug að fólk sem bregður búi og heldur út í óvissuna, yfirgefi allt það sem því er kærast án minnstu sannfæringar um að geta snúið til baka – raunar frekar í vissu um hið gagnstæða – að þetta fólk geri það af einhverri léttúð. Í langflestum tilvikum er ekki um neitt annað ræða.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021