Sumarið í sumar hefur farið ótrúlega vel með okkur. Flest höfum við ferðast eitthvað, notað ferðaávísunina og fengið okkur ís eða jafnvel jafnvel farið á Vestfirði og sumir (ekki ég) hafa jafnvel farið þangað sem engir bílar komast og farið inn á svæði sem eru komin í algjöra eyði.
Strandirnar eru ágætt dæmi um þetta, ég lét mér nægjan að keyra um svæðið, setja á góða hljóðbók með sögu eða ævisögum fólks á þessum svæðum og naut þess að skoða landið. Á þessum stöðum eru ótrúlegar síldarverksmiðjur sem eru í dag heimili kríanna og gamlir bæir sem eru ótrúlega litlir en hýstu jafnvel margar kynslóðir undir sama þaki. Áhugavert er að hugsa um þær aðstæður sem fólk bjó við þarna og aðstæður sem voru uppi þegar fólkið ákvað að hætta að búa á heimil sínu. Prufaðu bara að setja sjálfan þig í þau ótrúlegu spor að labba um eigið heimili í seinasta skipti. Það er enginn til að taka við því. Þú bara lokar hurðinni og labbar í burtu. Það er eina sem þú getur gert.
Þetta fólk sem tók þessar hrikalegu ákvarðanir er ekki eitthvað fólk í fyrndinni, í sumum tilfellum eru þetta ömmur okkar og afar. Lífið hélt áfram. Þjóðfélagið var að taka breytingum og fólkið þurfti að breytast með. Þjóðfélagið í dag er að taka breytingum, en erum við að taka eftir þeim?
Veturinn í vetur var ekkert auðveldur, og þeim mun betra að komast út og fá smá sól. Ég veit ekki hvort það sé eitthvað séríslenskt að vera svona bjartsýnn. Fyrir nokkrum vikum vorum við læst inni og vissum ekki hvað var framundan en í dag hafa fyrirtæki ekki undan við að flytja inn pallaefni, það gæti reynst þrautinni þyngri að finna gistingu á vinsælum ferðamannastöðum í júlí og dýrar fasteignir hafa haldið áfram að hækka í verði. Það virðist ekkert benda til þess að hér sé að koma kreppa nema kannski ein og ein spá greiningaraðila.
Greiningaraðilar spá heimskreppu, af stærð sem hefur ekki sést í 100 ár. Hjólin eru smám saman að hægja á sér eitt af öðru. Alveg sama hvert við lítum í kringum okkur, þá eru lönd annað hvort rétt að byrja að jafna sig á fyrstu bylgju eins og við, eða í miðjum faraldrinum. Þótt hér heima hafi okkur gengið vel að eiga við faraldurinn, þá hafa aldrei fleiri að meðaltali smitast á dag eins og þessa dagana. Stór ríki eins og Bandaríkin hafa verið í gríðarlegum vandræðum með að eiga við faraldurinn og þótt önnur ríki hafi náð að stöðva hann í bili, þá eiga menn von á annari bylgju og jafnvel þeirri þriðju þar á eftir. Það er ekki spurning hvort heimskreppa kemur, heldur fyrst og fremst hversu djúp hún verður og hversu lengi hún mun vara. Það mun allt ráðast af því hversu vel ríkjum mun ganga að eiga við faraldurinn.
Við þurfum ekkert að ímynda okkur að þetta eigi ekki eftir að hafa áhrif hér á landi. Við erum að fara að detta í kreppu. Þetta á heldur ekki eftir að taka nokkrar vikur, þetta mun taka mánuði eða ár. Þetta verður langur dimmur vetur.
Það mun reyna gríðarlega á ríkisstjórnina í því sem er framundan eins og hefur nú þegar gert. Margt hefur verið vel gert og margt ekki. Tíminn mun einn á endanum leiða það í ljós. En það er langur vegur framundan og gera má ráð fyrir áframhaldandi þrýstingi úr ólíkum áttum. Allt frá svipuðum þrýstingi eins og við höfum heyrt um að “halda verksmiðjunni” gangandi og yfir í hin populísku öfl með sínar einföldu skyndilausnir. Mikilvægt er að staðið verði í lappirnar, tíminn nú verði vel notaður í undirbúning og þær aðgerðir sem farið verði í nýtist beint. Sú góða fjárhagsstaða sem er á Ríkissjóði er ekki sjálfgefin og hætta er að stöðunni verði sóað með ómarkvissum og ónauðsynlegum aðgerðum.
Ef popúlistarnir og þrýstihóparnir hefðu fengið ráðið væru líklega enn síldarverksmiðjur í fullum gangi og þótt engin sé síldin.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020