Í morgunrútínunni kemur það iðulega fyrir að ég gleymi einhverju. Lyklar, veski, jakkar, hleðslutæki fyrir tölvu, tölvan sjálf, frakkar og útiföt fyrir dætur mínar, aðra eða báðar, eru allt dæmi um hluti sem uppgötvast stundum þegar líður á morguninn að eru ekki á sínum stað með tilheyrandi skyndi u-beygjum eða skottúrum heim.
Einn hlutur hefur hins vegar ekki ratað inn á þennan lista óvenjulega lengi. Það er síminn minn.
Ástæða þess er einföld; hann er orðinn nánast samgróinn við hendina á mér. Þannig átta ég mig strax á því ef svo ólíklega vill til að hann er ekki í vasanum, þar sem ég er venjulega farinn að fálma eftir honum um leið og ég sest inn í bílinn.
Örrúnturinn á netinu
Ég hef masterað ör-netrúntinn, sem tekur undir 20 sekúndur. Þá tékka ég póstinn og Facebook. Bara hratt, opna appið eða póstinn og sé strax hvort það sé eitthvað í gangi en næ samt ekkert að bregðast við, því 20 sekúndurnar eru fljótar að líða og ég þarf að fara að beita mér, bakka út úr innkeyrslunni og keyra af stað. Á fyrstu ljósunum sem ég stoppa á kemur næsti örrúntur. Þá kannski tékka ég netið, stutt skrens á mbl.is eða visir.is og ef eitthvað kom upp í fyrra rúntinum, t.d. nýr póstur datt inn þá kannski skoða ég það aftur stuttlega og aðeins betur.
Svona gengur þetta alveg þar til að ég kem í vinnuna og allir tímastjórnunarheimspekingar heimsins fá hiksta með því að ég opna strax netið, Facebook og Twitter. Ef ég þarf að standa upp og skjótast eitthvað þá hef ég yfirleitt símann með.
Ég get ekki alveg svarað spurningunni hverju ég telji mig vera að missa af. Frekar en aðrir svo sem. En úr verður afbrigðilega lágt hlutfall þess að gleyma símanum heima, t.d. miklu lægra en gagnvart öllum öðrum munum sem ég þarf að vera með mér reglulega.
Kannski er skýringin sú að síminn er fyrir langa löngu orðinn svo miklu meira en sími. Hann er tölva, myndavél, net, samfélagsmiðlar og leikir en samt líka meira en það. Hann er orðinn dægradvölin manns, fyllir upp í tómið og gerir það að verkum að maður á aldrei lengur stund með sjálfum sér í þögn og kyrrð. Við erum að upplifa þá tíma þar sem kyrrðinni er hægt og örugglega útrýmt.
Hlutfall þess að gleyma símanum sínum heima er með töluvert öðrum hætti hjá t.d. foreldrum mínum. Þau geyma – ath. geyma, en ekki gleyma – símann oft heima og þá er kannski bara slökkt á honum, atburðarrás sem er nánast óhugsandi í mínu lífi í dag og sennilega margra annarra.
Ef meðalmaðurinn í dag þyrfti að velja milli þess að vera án matar eða án síma í einn dag myndu sennilega flestir sleppa matnum. Hvernig ættu þeir annars að geta póstað um hvernig væri að fara í gegnum heilan dag án þess að borða neitt?
Einn og batteríslaus
Um daginn gerðist það hins vegar sem maður reynir fyrir alla muni að forðast, þ.e. símaleysi. Staðan var sem sagt þessi: Ég var án síma, tölvu eða nokkurs konar nettengds skjás, án félagsskapar og án þess að koma mér sjálfviljugur í þær aðstæður. Ég var á veitingastað að bíða eftir þeim sem ég átti að hitta en var mættur ca. 15 mínútum of snemma. Hugsaði mér gott til glóðarinnar, QT með símanum framundan en sé þá að hann er alveg á síðustu batterísgufunum. Kaldhæðni örlaganna, ofnotkunin kom í bakið á mér. Vertinn var þó svo góður að leyfa mér að stinga honum í hleðslu en það breytti því ekki að ég hafði 15 mínútur til að drepa, einn með sjálfum mér.
Ég fattaði allt í einu að ég hlyti að vera að fara að upplifa eitthvað stórkostlegt persónulegt móment. Loksins hafði rás atburðanna hagað því þannig að það var enginn sími, tölva eða önnur nútímatækni væri að trufla athyglina, ég var einn og út af fyrir mig. Nú hlyti að bresta á með einhvers konar núvitundar-nirvana þar sem hlutirnir yrðu settir í samhengi. Hvað þyrfti ég á einhverjum síma að halda?
En ekkert gerðist, sama hvað ég horfði upp eftir ljósastaurunum, á trjátoppana eða vegfarendurna og reyndi að framleiða einhverja lífspeki og snilld í kollinum á mér. Fljótlega rifjaðist upp fyrir mér hvað þessi móment eru nú þrátt fyrir allt þung og tyrfin.
Ég sneri mér því að því að fara að fylgjast með fólkinu. Fór að renna augunum yfir nálæga gesti og fylgjast með þeim. Fljótlega rann þó upp fyrir mér að ég var farinn að líta út eins og gaurinn sem mætir einn á skemmtistað og er alltaf að reyna að ná augnkontakti við einhverja aðra í þeirri von um að geta sest hjá þeim. Þannig að ég neyddist til að hætta snögglega. Ég gerði aðra tilraun við núvitundina en hún skilaði engu og eftir sat ég með þann kost einan að sitja bara. Svolítið svona eins og gamall maður að bíða eftir strætó sem vill engan styggja, þannig að hann horfir í 45 gráður fram fyrir sig. Fór svona að nudda á mér handabakið, laga jakkann og passa að ég sæti beinn.
Kannski hefur hið stöðuga áreiti sem snjallsíminn skapar gert það að verkum að við erum hætt að geta notið kyrrðarinnar. Við erum á einhverri vegefrð sem ég veit ekki hvar endar. Væntanlega eru bara örfá ár í að hinn almenni maður verði farinn að ganga með Google-Glass að staðaldri og sjá heiminn eins og Arnold Schwarzenegger í Terminator 2. Við munum kannski ekki njóta kyrrðarinnar lengur en á móti kemur einhvers konar sívitund þar sem ekkert notification, enginn tölvupóstur og engin skilaboð munu nokkru sinni fara fram hjá okkur.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021