Nýliðinn áratugur var sá besti í sögu íslensks sjávarútvegs þegar horft er til arðsemi. Útgerðarfélög nýttu sér hagstæð rekstrarskilyrði til að grynnka á skuldum sem höfðu safnast upp í aðdraganda bankahrunsins og réðust í miklar fjárfestingar í nýskipum, sjálfvirknivæðingu, aflaheimildum og nýsköpun. Að vísu hefur verið misgóður gangur í sjávarútvegi, uppsjávarfyrirtæki og fyrirtæki í blönduðum veiðum hafa búið við hærri arðsemi en fyrirtækin sem einblína á veiðar og vinnslu á bolfiski. Þegar um 30 ár eru liðin frá því að frjálsu framsali aflaheimilda var komið á stefnir í talsverð kynslóðaskipti í íslenskum sjávarútvegi þar sem stjórnendur og eigendur margra félaga, sem hafa byggt upp fyrirtæki af dugnaði, nálgast starfslok. Ekkert er sjálfgefið að yngri kynslóðir taki við búinu og því gæti hlutabréfamarkaðurinn reynst góður farvegur að opna á eignarhald í íslenskum sjávarútvegi. Hlutabréfamarkaðurinn væri líka góð leið til að stuðla að meiri sátt um fyrirkomulag sjávarútvegs.
Þau áform stærstu eigenda Síldarvinnslunnar að skrásetja félagið á hlutabréfamarkað á næstu vikum hafa vakið mikla athygli. Aðeins eitt útgerðarfyrirtæki er almenningshlutafélag en það er Brim sem áður hét HB Grandi. Ekki er ósennilegt að þessi ákvörðun tengist háværari kröfu um að fleiri komi að eignarhaldi á íslenskum útgerðarfyrirtækjum. Margir muna eftir þeim tíma þegar fjölmörg útgerðarfyrirtæki voru skráð á markaði en þeim tók að fækka skarpt eftir aldamótin þegar m.a. aðgengi fjárfesta að lánsfé gaf þeim færi á að afskrá félögin. Eignarhaldið færðist þá úr eigu almennra fjárfesta og lífeyrissjóða yfir til færri fjárfesta. Þessi atburðarrás náði líklega hámarki þegar nýir eigendur Eimskipafélagsins brutu upp sjávarútvegsarminn Brim og seldu Harald Böðvarsson, Skagstrending og Útgerðarfélag Akureyringa til fjárfestahópa. Vert er að minnast orða Benedikts Jóhannessonar, fráfarandi stjórnarformanns Eimskipafélagsins, sem varaði við því að eignarhaldið í sjávarútvegi færðist úr eigu almenningshlutafélaga. Færsla kvótans á færri hendur myndi stuðla að ósætti um fiskveiðistjórnunarkerfið.
Þónokkur samþjöppun hefur orðið á síðustu árum með yfirtökum sterkra fyrirtækja í greininni á smærri útgerðarfyrirtækjum og kvótakaupum. Sitt sýnist hverjum. Lítill pólitískur vilji virðist vera fyrir því að hækka kvótaþakið svokallaða. Hér er má þó ekki gleymast að íslenskur sjávarútvegur stendur í gríðarlegri og harðnandi samkeppni á alþjóðavísu. Fiskeldisrisarnir í Noregi hafa fjárfest mikið í fyrirtækjum sem stunda veiðar á villtum fiski. Rússneskur sjávarútvegur er svo í mikilli sókn. Ef við Íslendingar ætlum að fá meira framlag í ríkiskassann frá sjávarútvegi í formi skatta og veiðigjalda gætum við þurft að íhuga alvarlega að heimila stærstu útgerðarfélögunum að vaxa með ytri vexti. Skráning fleiri útgerðarfélaga á hlutabréfamarkað veitir almenningi beina aðild að auðlindinni og stuðlar vonandi að meiri sátt um sjávarútveg. Félög á hlutabréfamarkaði hafa greiðan aðgang að fjármagni sem ætti að geta hraðað þeim breytingum sem eru að verða á eignarhaldi innan innlends sjávarútvegs.
- Íslenskir bankar og útlendingar - 22. júní 2021
- Hitnar í ofnunum - 21. apríl 2021
- Kynslóðaskipti í sjávarútvegi - 22. mars 2021