Morgunblaðið greindi frá því á þriðjudaginn að konur á framboðslista Röskvu til stúdentaráðs væru jafnmargar körlum. Var á fréttinni að skilja að þetta væri ekki tilviljun heldur með ráðum gert og þá væntanlega til að sýna jafnréttisvilja Röskvuliða í verki. Það er reyndar nokkuð skondið að tefla þeirri staðreynd fram sem einhverju trompi, að dilkadráttur hafi farið fram við val á listanum.
Þessi kynjakvóti er enn einn vitnisburðurinn um tengsl Röskvu við Samfylkinguna, þar sem slíkir kvótar eru í miklu uppáhaldi, enda Kvennalistinn ein meginstoð fylkingarinnar. Deiglan hefur áður talað um Röskvu sem ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar í háskólanum og spunnust í kjölfarið harðvítugar umræður á Heimstorgi.
En er ekki bara gott mál að skipta listanum jafnt á milli kynjanna? Er Röskva ekki bara að sýna gott fordæmi með þessu? Þetta eru spurningar sem eiga rétt á sér en málið snýst á endanum um gildismat. Sú skoðun hefur löngum átt upp á pallborðið hjá Deiglunni, að meta eigi einstaklinga eftir hæfileikum þeirra. Ekki á við það mat að skipta máli hvort þeir séu með utanáliggjandi þvagrás eða ekki.
Þessi skoðun hefur átt hljómgrunn innan Vöku og því er athyglisvert að skoða framboðslista hennar til stúdentaráðs, en hann má m.a. finna á Vökuvefnum. Á vef Röskvu er enginn listi yfir frambjóðendur í komandi kosningum enn sem komið er, en þar er þó að finna ítarlega umfjöllun um kosningarnar í fyrra.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021