Einhvern tímann heyrði ég að hefð væri skilgreind með þeim hætti að eitt skipti væri tilfallandi, eitthvað gert í annað sinn væri endurtekning, en þegar eitthvað væri endurtekið í þriðja sinni væri komin á hefð. Ef til vill er ekki úr vegi að rifja upp þessa ágætu skilgreiningu á hinni einu sönnu hátíð hefðanna á þessu ári fullkominna umróta sem félagsforðun sóttvarnir og takmarkanir á ferðalögum milli landa hafa haft í för með sér.
Jólakveðjur Ríkisútvarpsins eru fyrir marga ómissandi hefð á jólum þar með talið fyrir þann sem hér fer háværum fingrum um lyklaborðið. Í jólakveðjum ársins var sérstakt að heyra sameiginlegan enduróm þess sem helst er saknað á þessu sérstaka ári sem er að hittast, faðmast, knúsast og njóta saman. Almennt þættu þetta vera frekar hógværar og hófstilltar óskir en líkt og hið fornkveðna segir; enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
Allmargar útgönguspár voru á eina lund: þetta var skelfilegt ár, orti Bragi Valdimar árið 2008 og Baggalútur söng það sem varð að jólalafi árs bankaþrots og gjaldeyrishafta. Að mörgu leyti getum við tekið hér undir um þessi jól enda hafa margir orðið fyrir búsifjum, misst atvinnu og lifibrauð og þá hanga heilu atvinnugreinarnar á horriminni. Takmarkanir á samskiptum hafa leikið þá sem teljast til viðkvæmari hópa grátt. Og þá hafa þessir tímar verið sérstaklega erfiðir framhaldsskólanemendum sem lítið hafa fengið að mæta í skólann og hitta skólafélagana sem er mikilvægur hluti af því að þroskast og komast til manns. Við gleymum síðan ekki náttúrhamförum ársins og þökkum þá mildi að enginn hafi týnt þar lífi.
Og nú höldum við jól í þessu nýja normi og í fjöldatakmörkunum; búum til jólakúlur með fólki og reynum að hitta sem fæsta. En það er kannski allt í lagi að nýta það tækifæri sem hér gefst eins og um flest annað sem taldi til sjálfsagðra hluta að endurmeta þörfina og hvort að tími sé kominn til að breyta og gera hlutina öðruvísi.
Þetta er líkt og jólaboðið sem hefst með systkinum svo bætast með tímanum við börn þeirra og síðar makar og önnur viðhengi og þeirra afkomendur. Á endanum er fjöldinn orðinn svo mikill að jólaboðið springur og klofnar í smærri jólaboð. Og það sama endurtekur sig og nýjar hefðir verða til með smærri jólaboðum. Þegar allt kemur til alls eru hefðirnar nefnilega ekki eins óumbreytanlegar og við viljum vera að láta og það sama á við um jólin. Þau koma alltaf þótt umgjörðin breytist enda ljómar perlan þótt skelin brotni.
Og talandi um hefðir. Undirritaður skrifaði síðasta pistil á þetta ágæta vefrit fyrir rúmum tólf árum. Það er drjúgur tími í lífinu um það bil sá hinn sami og Ingibjörg Einarsdóttir sat heima í festum og beið eftir Jóni sínum Sigurðssyni en vart mælanlegur hluti af eilífðinni. Ef við beitum þeirri skilgreiningu á hefð sem rakin var hér í upphafi gætum við því sagt að þögn undirritaðs hefur verið löng og órofin tólf ára hefð sem þessi pistill nú rýfur. Hvort að ný hefð skapist ræðst hins vegar af endurtekningunni en um það ríkir óvissa líkt og svo margt um þessar mundir.
Yfirskrift þessa pistils er úr ljóði Stefáns frá Hvítadal Aðfangadagskvöld jóla 1912 sem fjallar kannski fyrst og fremst um það að gleðjast þrátt fyrir tímabundna erfiðleika. Með það í huga óska ég lesendum öllum nær og fjær, til sjávar og sveita, hér á landi sem erlendis gleðilegra jóla.
- Kveikt er ljós við ljós – burt er sortans svið - 24. desember 2020
- Hæstivirtur forseti,Royal Straight Flush! - 21. febrúar 2008
- Má Kaupþing þetta? - 7. nóvember 2007