Heldur hefur syrt í álinn hjá Stoke City í síðustu leikjum og hefur liðið aðeins fengið eitt stig af síðustu níu mögulegum. Samhliða þessu hefur verðgildi hlutabréfa í Stoke Holding, eignarhaldsfélagi íslensku fjárfestanna, rýrnað nokkuð, eða um 10-15% að því er heimildir Deiglunnar herma. Vitaskuld var fyrirséð að gengi bréfanna myndi haldast í hendur við gengi liðsins inni á vellinum, en svo mikil lækkun kemur samt nokkuð á óvart.
Ljóst er að Guðjón Þórðarson er í kröppum dansi með lið sitt og tapið gegn Gillingham um helgina, 3:0, er það stærsta hjá Guðjóni síðan hann stjórnaði íslenska landsliðinu gegn því rúmenska í Búkarest haustið 1997, en þá töpuðu Íslendingar 4:0. Það hlýtur að vera íslensku fjárfestunum og þeim, sem keyptu nýverið hlut í Stoke Holding að lágmarki fyrir 150 þúsund krónur, nokkuð áhyggjuefni hversu strembið það virðist ætla að verða, að komast upp úr hinni alræmdu 2. deild.
Gunnar Þór Gíslason, stjórnarformaður Stoke, lýsti því yfir á fundi með áhangendum liðsins á dögunum, að Stoke City þyrfti að hafa unnið sér sæti í 1. deild í síðasta lagi vorið 2001. En ef það tekst ekki fyrir þann tíma? Er ævintýrið þá búið? Er þetta stöðugleikinn og uppbyggingin til framtíðar sem íslensku fjárfestarnir gumuðu af er þeir tóku völdin á Britannia?
Auðvitað er afar mikilvægt fyrir þá sem hlut eiga að máli, að Stoke komist sem fyrst upp úr 2. deild, og hefði Deiglan haldið fyrirfram að menn hefðu sett sér það takmark strax í vor. Og það er vitaskuld ennþá mjög raunhæfur möguleiki, liðið er í sjötta sæti þegar næstum heilt Íslandsmót er til loka keppnistímabilsins. En það er ekki hyggilegt af forráðamönnum Stoke að setja sjálfum sér, liðinu og áhangendum þess einhverja úrslitakosti. Slíkt er eingöngu til þess fallið að draga úr möguleikum liðsins á að ná árangri. Þótt ótrúlegt megi virðast þá gilda enn nokkuð önnur lögmál við stjórn knattspyrnufélaga en um rekstur hefðbundinna fyrirtækja.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021