Með einar kosningarnar enn í reynslubankan er ég hugsi yfir þeim næstu. Ég er búin að greina sjálfa mig sem kosningafíkil. Fjölskyldan mín og vinir hafa öll sammælst um að svo sé. Ég á mér ekki nein áhugamál sem slík, ég er núna að reyna að gera ræktina að áhugamáli, ganga á einhver fjöll og lesa bækur. Staðreyndin er bara sú að ég elska að taka þátt í kosningum, það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir það.
Ég er samt með ákveðinn standard þegar kemur að kosningum, ég tek ekki þátt í hverju sem er. Ef mér væri boðið á morgun að stýra kosningabaráttu Trump, myndi ég segja nei. Þó það myndi þýða að ég væri að stýra kosningabaráttu á stærsta sviði stjórnmálanna.
Ég þarf að fyllast ástríðu fyrir þeim sem ég er að vinna með og fyrir. Ég þarf að trúa á flokkinn og/eða frambjóðendurna og vita innst í hjarta mér að ég er að vinna fyrir réttan málstað.
Ég fékk tækifæri til að vera með í að stýra kosningabaráttu hjá nýkjörnum forseta. Auðvitað komu stundir sem voru erfiðar og reyndu á en þegar ég horfi til baka sé ég bara gleðina sem þetta gaf mér. Það var svo dýrmætt að sitja með fólki sem alla jafna ég vinn aldrei með. Ég var þarna með fólki sem mynda nánast allt hið pólitíska viðhorf, fólk úr Vinstri Grænum, Samfylkingu, Sjálfstæðisflokk og já óflokksbundnir. Við grínuðumst með þetta af og til en í raun fannst mér ekkert eins frábært og það að koma saman og vinna að því markmiði að gera þann frambjóðanda sem við trúðum að væri bestur að forseta Íslands.
Eftir svona baráttu er erfitt að verða mjög spennt fyrir komandi kosningum, einhvern veginn er allt “let down” eftir svona. Núna í fyrsta sinn á ég vini sem eru að íhuga eða eru búin að gefa kost á sér til þingmennsku fyrir nánast alla flokkana á Alþingi. Ég sit hér og hugsa vá hvað Ísland myndi njóta góðs af því að fá þetta fólk til að stýra landinu. Þetta er fólk sem ég veit að hefur sannkallaða ástríðu fyrir því sem þau taka sér fyrir hendur. Þetta er fólk sem ég myndi treysta ekki bara fyrir lífi mínu heldur einnig lífi fjölskyldu minnar. En ég get ekki kosið þau öll.
Því velti ég fyrir mér hvernig getum við búið til stjórnmálalíf á Íslandi sem minnir mig á þá kosningabaráttu sem ég var að klára. Þar sem fólk frá öllum hliðum samfélagsins kemur saman og vinnur að því einu að gera samfélagið betra? Er einhver leið?
Ég held að með sem mestri endurnýjun á Alþingi af fólki sem hefur víðtæka reynslu, og helst sem minnsta úr pólitísku skotgröfunum, megi tryggja nýja leið í stjórnmálunum. Það má gera með því að kjósa fólk í forkosningum, prófkjörum og flokksvali, sem hefur unnið í fyrirtækjum, tekið þátt í félagsstörfum og svo framvegis, fólk sem kann að finna lausnir og keyra þær í gang.
Það er nefnilega allt í lagi að vera ósammála, það er hollt og nauðsynlegt að fá vítt sjónarhorn á Alþingi. En hugsunin að “ef þetta eru ekki mínir liðsmenn þá verð ég mótfallin, mér er sama þó ég sé sammála ég kýs gegn þeim” verður að víkja.
- Óður til Dollýar - 29. júlí 2021
- Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna - 9. júní 2021
- Þegar mennskan hverfur - 26. apríl 2021