Körlum er betur treyst til að stýra framúrskarandi fyrirtækjum

90% framkvæmdastjóranna sem stýra mest framúrskarandi fyrirtækjum Íslands eru karlar. Creditinfo og Viðskiptablaðið hafa gert úttekt á því hvaða fyritæki, samkvæmt þeirra skilgreiningu, teljast framúrskarandi. Um þetta skrifar Viðskiptablaðið meðal annars í frétt á vef sínum. Fyrirsögnin fréttarinnar sneiðir framhjá steiktasta og sorglegasta fréttapunktinum en hann er að aðeins 10% þessara fyrirtækja er stjórnað af konum.

Þessi staða er jafnvel enn verri þegar horft er út fyrir landsteinana en aðeins 5,2% af Fortune 500 fyrirtækjunum er stjórnað af konum árið 2014. Sorglegt.

Nú er uppkomin kynslóð ungra eldhuga sem hafa upplifað lagalegt jafnrétti frá blautu barnsbeini. Stelpur jafnt og strákar troðfylla leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla landsins og berjast þar á janfréttisgundvelli. Og svo ryðja þau sér til rúms á vinnumarkaðnum. Þar eru konur í sumum starfsgreinum í meirihluta, öðrum ekki en gefa körlunum ekkert eftir. Þær eiga hins vegar ekki eins auðvelt með að komast í stjórnunarstöður innan fyrirtækjanna og karlarnir, í það minnsta ekki frammúrskarandi fyrirtækja.

Körlum er betur treyst til þess að gegna þessum hlutverkum og það er sorgleg staðreynd. Metnaðarfullar konur sjá fyrrum bekkjarbræður sína taka framúr þeim inni á vinnustöðunum sem er niðurdrepandi. Margar kvennanna eru pottþétt ekki eins hæfar og sumir karlarnir. Margar eru pottþétt ekki eins duglegar og sumir karlarnir. Margar eru líka pottþétt ekki eins klárar og sumir karlarnir. En margar þeirra samt pottþétt klárari, duglegri og hæfari en allir karlarnir og verða samt undir í slagnum um framkvæmdastjórastólinn.

Með því að velja oftast karla umfram konu í veigamikil hlutverk innan fyrirtækjanna er missir samfélagsins og fyrirtækjanna mikill. Þetta er hins vegar flókið vandamál sem okkur gengur erfiðlega að leysa þó flestir virðist sammála því að konur eigi að stjórna jafns við karla og njóta fyrir það sömu launa. Lausnin er ekki einföld eða einþætt en mikilvægt er að við hættum ekki að berjast fyrir betra samfélagi.

Íslensk stjórnvöld mættu þó byrja á einu skrefi sem færir okkur ef til vill nær takmarkinu. Lengja ætti fæðingarorlofið þannig að báðir foreldrar geti tekið 6 mánuði í orlof með barni sínu en konurnar “lendi” ekki í því í lang flestum tilfellum að vera heima með börnin á meðan karlarnir máta sig við framkvæmdastjórastólinn. Ef þessi leiðrétting kæmist í gegn þyrftu konur í það minnsta ekki að þurfa að verða undir í kapphlaupinu að stólnum eftirsótta vegna barneigna.

 

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)