Á fyrri árshelmingi 2015 seldust rúmlega fimm milljónir platna í Bandaríkjunum. Það þarf kannski ekki að koma á óvart í ljósi þess að blómaskeiði plötunnar lauk fyrir um 25 árum, en fimm milljónir platna er ekki sérstaklega mikið – í samanburði seldust um tíu sinnum fleiri geisladiskar auk þess sem álíka mörgum albúmum var niðurhalað.
Það sem er öllu merkilegra er að á meðan bæði niðurhal og geisladiskasala drógust saman frá sama tímabili árið áður sótti plötusalan verulega í sig veðrið, en hún jókst um heil 38 prósent á fyrri helmingi ársins. Það er framhald á þróun síðustu ára, en allan annan áratuginn hefur plötusala vaxið veldisvexti ár frá ári. Ekki er lengra síðan en 2007 að innan við milljón platna seldist allt árið í Bandaríkjunum, en svipaðrar þróunar hefur gætt í Bretlandi og víðar – upprisa vínylplötunnar er sannarlega kombakk. Að hluta til er eflaust um tískufyrirbrigði að ræða, en öðrum þræði er þetta til marks um breytingu á listneyslu samhliða tækniframförum.
Við upphaf tíunda áratugarins, um svipað leyti og geisladiskurinn er að ryðja sér til rúms, var ómögulegt að greina á milli þess að eiga og neyta tónlistar. Ef litið er framhjá útvarpsútsendingum varð hlustandinn að eignast eintak af albúmi til þess að geta hlustað á tónlist. Við þessar aðstæður var ástæða þess að geisladiskurinn varð ráðandi tónlistarform að hann var handhægur. Það mátti ferðast með hann, hljómgæðin voru töluvert betri en á segulbandi og auðveldara að skipta á milli laga.
Með tilkomu streymisþjónusta á borð við Spotify hefur hinsvegar orðið breyting á. Þær eru nú handhægasta leiðin til að hlusta á tónlist, sem gefur hlustandanum tækifæri til að greina á milli þeirrar tónlistar sem hann vill eiga, og þeirrar sem hann vill neyta. Það þarf því engan að undra að eigulegasta tónlistarformið, nefnilega vínylplatan, skuli aftur fljóta til yfirborðsins á meðan geisladiskar sökkva, samhliða því sem tilgangur þess að eiga áþreifanlegt eintak tónlistarverks breytist.
Sjálfur eignaðist ég plötuspilara í ársbyrjun, og hef tekið vínyltrú. Í fyrsta lagi eru vínylplötur fallegar, og bestu plötuhulstrin hálfgerð listaverk sem er gaman að hafa til sýnis í stofuhillu – auk þess sem plötusafnið segir gestum mikið um tónlistarunnandann. Hulstragerð þótti hafa farið aftur með geisladisknum, enda úr mun minna flatarmáli að moða, en það stendur vonandi til bóta með endurfæðingu plötunnar. Í öðru lagi kemst maður ekki upp með að hlusta á plötur á vínyl öðruvísi en skaparar þeirra ætluðu. Það er engin leið að velja auðmeltasta lagið stakt á playlista, eða sleppa leiðinlegu lögunum. Vínyllinn spilast einfaldlega frá byrjun til enda, sem verður til þess að hlustandinn upplifir allt hið heildstæða verk sem tónlistaralbúm er. Í þriðja lagi er athöfn að setja plötu á fóninn, að taka hana úr innhulstrinu, handfjatla hana og vita að allar misfellur í hljóðrákunum eru einstakar – sem Spotify appið í símanum getur einfaldlega ekki keppt við. Í fjórða lagi er fátt skemmtilegra en að fara í fjársjóðsleit í notuðum plötubúðum og reyna að finna ný djásn í safnið.
Af öllum þessum augljósu yfirburðum töldum hljóta hreinlega fleiri að dusta rykið af gömlum plötuspilurum – enda benda öll teikn til þess að upprisa plötunnar sé rétt að hefjast.
- Borg án sýningarstjóra - 7. desember 2015
- Kombakk plötunnar - 25. ágúst 2015
- Hugleiðing um tjáningarfrelsi - 4. maí 2015