Borgaryfirvöld hafa sagt reykvískum köttum stríð á hendur og verja nú umtalsverðum fjármunum í að uppræta meint kattafár innan borgarmarkanna. Aðgerðin hófst í fyrradag með því að vaskir borgarstarfsmenn komu fyrir búrum í húsagörðum í einum borgarhluta. Þegar búranna var vitjað í gærmorgun voru þau vitaskuld full af köttum – en ekki réttu köttunum. Enginn hinna alræmdu villikatta lét glepjast í gildrurnar, heldur voru þær yfirfullar af spikfeitum og andvaralausum heimilisköttum. Afraksturinn af þessari fyrstu hrinu átaksins var því útilegunótt fyrir ofdekraða heimilisketti við heldur óvistlegar aðstæður.
En þetta er einungis lítill kafli í þeirri sorgarsögu sem herför borgaryfirvalda gegn reykvískum köttum er að verða. Reglugerðin sem herferðin byggist á var samþykkt sl. haust og samhliða henni ítarleg gjaldskrá. Samkvæmt þessari gjaldskrá skyldi innheimta sektir fyrir töku villikatta og sérstakar dagsektir fyrir hvern dag sem þeir dveldu í vörslu borgarinnar. Þetta er svo sem gott og blessað, en hvert á að senda reikninginn? Kannski til eigenda villikattanna?
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021